Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Eins og að ganga inn á gott ættarmót“

09.03.2018 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Það er brýn þörf að ráðast í framkvæmdir í vegakerfinu segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir að vegirnir séu vægast sagt illa hverjir og margir hverjir ónýtir. Flokksþing Framsóknarflokksins hófst í dag.

Þetta er fyrsta flokksþing Framsóknarmanna frá hinu dramatíska flokksþingi í október 2016 þegar Sigurður Ingi Jóhannsson felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem formann. Því er sennilegt að Framsóknarfólk geri upp málin og fari þannig yfir það sem á undan er gengið.  Á flokksþingi er ákveðin meginstefna flokksins og línurnar lagðar. Formaðurinn flytur stefnuræðu sína í fyrramálið og þá flytja ráðherrar flokksins líka skýrslur sínar um stöðu mála í þeirra ráðuneytum. Í dag hefur Framsóknarfólk rætt #metoo-byltinguna og fundað í málefnahópum og sú vinna stendur enn.

„Þegar ég kom hérna inn í salinn var hérna fullt af fólki. Þetta var eins og að ganga inn á gott ættarmót, ungir sem aldnir. Það var þessi gamli, góði Framsóknarandi sem sveif hér yfir vötnum,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir horft til þess að nýta fjármuni úr bankakerfinu til að fara í framkvæmdir í vegakerfinu á næstu árum, jafnvel í ár. „Mér hefur fundist á síðustu vikum menn gera sér sífellt betur grein fyrir því að samgöngurnar eru lífæð samfélagsins. Því miður, eftir þennan vetur, eru vegirnir vægast sagt illa farnir ef ekki ónýtir margir hverjir. Svo er bara þörf á nýframkvæmdum þar sem aukning á umferð hefur verið gríðarleg.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV