Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eins manns her á móti auðvaldinu

Mynd: RÚV / RÚV

Eins manns her á móti auðvaldinu

18.05.2018 - 14:07

Höfundar

Íslenska kvikmyndin Kona fer í stríð var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í síðustu viku. Gagnrýnendur erlendra fjölmiðla hafa tekið henni vel og hefur hún þegar hlotið tvenn verðlaun. Myndin fjallar um hugsjónamanneskju sem hefur farið yfir ákveðna línu í sinni baráttu.

Benedikt Erlingsson leikstjóri og Ólafur Egill Egilsson, handritshöfundur myndarinnar Kona fer í stríð, fengu í fyrradag SACD verðlaunin sem veitt eru í flokknum Critic’s Week á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Degi síðar fékk Benedikt önnur verðlaun í Cannes, Gyllta lestarteininn. Myndin hefur einnig fengið góða dóma í miðlum sem mark er tekið á, eins og Hollywood Reporter og Variety.

Í myndinni fer Halldóra Geirharðsdóttir með hlutverk íslenskrar byltingarkonu sem stendur með hugsjón sinni um náttúruvernd og lætur til sín taka. „Þegar maður er að berjast við kerfi þá er ekki nóg að vinna bara sympatíuna, því hún er bara mannleg. Það þarf að vera efnahagslegur þrýstingur,“ segir Benedikt þegar hann lýsir baráttu aðalsöguhetjunnar.

„Fólk gleymir því að Gandhi var með skyndiverkföll og hann var að valda efnahagslegum skaða,“ segir Ólafur Egill, „og Mandela var skemmdarverkamaður, hann var dæmdur fyrir landráð,“ bætir Benedikt við. Þeir segja þó að myndin sé ekki áróðursmynd sem hvetji fólk til skemmdarverka. Hún er um hugsjónarmanneskju sem hefur farið yfir ákveðna línu í sinni baráttu. 

Þú eflir óvin þinn

Þeir segja að hættan við róttækni aðalsöguhetjunnar í myndinni sé að hún efli í leiðinni óvininn og opni fyrir möguleikann að hann svari í sömu mynt. „Þá er búið að taka hanskana af,“ segir Benedikt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt Erlingsson og Ólafur Egilsson á góðri stundu í Cannes.

Ólafur segir að mannskepnan standi frammi fyrir þeirri spurningu hvort hún sé tilbúin að gera eitthvað fyrir komandi kynslóðir eða hvort það sé orðið of seint. „Þetta er stórt verkefni fyrir mannkynið og þá sérstaklega fyrir ríka hluta mannkynsins, okkur sem ferðumst með flugvélum,“ segir Benedikt. Þetta geti ekki verið lengur bara vandamál neytandans, heldur þurfi þetta að vera vandamál framleiðandans. Þá þurfi ríkisvaldið að koma inn og setja reglur.

Til hvers að bjarga heiminum?

Aðalsöguhetjan stendur ekki bara í ströngu í baráttu sinni við stóriðjuna heldur fær hún líka fréttir um að umsókn hennar um ættleiðingu á barni frá Úkraínu hafi verið samþykkt. Það varpar nýju ljósi á allt sem hún hefur verið að gera og hún þarf að svara stórum spurningum. Á hún að halda áfram að vera eins manns her á móti auðvaldinu, eða á hún að leggja til hliðar baráttuna þegar barnið er komið inn í myndina? „Til hvers að bjarga einu barni ef að heimurinn er glataður?“ spyr Benedikt og Ólafur bætir þá við „og til hvers að bjarga heiminum ef þú getur ekki bjargað einu barni?“ 

Þeir segja að þó myndin fjalli um mjög alvarleg málefni þá vilji þeir skemmta áhorfendum. Þeir lýsa myndinni sem „umhverfis-aksjón-þriller.“ Myndin verði að ná til áhorfenda og helst að verða vinsæl, en einnig fá þá til að hugsa. 

Það virðist ganga eftir hjá þeim félögum, því myndin hlaut ekki eingöngu lofsamlega gagnrýni í stórum erlendum fjölmiðlum, heldur hefur sala hennar gengið mjög vel. Benedikt segir að það sé stórra frétta að vænta, jafnvel í dag, af sölu og dreifingu myndarinnar. Hann missti út úr sér, sem hann var ekki alveg viss um hvort hann mætti á þessum tímapunkti, að hún hafi meðal annars verið seld til Kína.

Viðtalið var flutt í Mannlega þættinum föstudaginn 17. maí og hægt er að hlusta á það í heild í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Kona fer í stríð hlýtur Gyllta lestarteininn

Kvikmyndir

Benedikt og Ólafur fá verðlaun á Critic's Week

Kvikmyndir

Kona fer í stríð fær lofsamlega dóma í Cannes

Kvikmyndir

Einn dagur í frumsýningu í Cannes