Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eins auðvelt og að panta pizzu

13.03.2018 - 15:46
Snorri Birgisson, lögreglufulltrúi og yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar í Reykjavík.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vændi á Íslandi fer að mestu leyti fram í Airbnb-leiguíbúðum í miðbæ Reykjavíkur. Þetta kom fram í máli Snorra Birgissonar, yfirmanns mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á opnum fundi borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar um mansal í dag.

„Mikið til hefur verið horft til íbúða þar sem hægt er að komast inn og út án þess að vera mjög áberandi. Vegna þess að flæði fólks um þessar íbúðir er mjög mikið, við sjáum það. Þegar það eru komnar vændiskonur, stundum tvær eða þrjár inn í eina íbúð, getur flæðið orðið mikið og fólk fer að gruna eitthvað. Þeir sem að bóka íbúðirnar horfa því til þess að aðgengi að íbúðunum sé falið,“ segir Snorri.

Auglýst á Snapchat og Instagram

Snorri bendir á að framboð vændis hér á landi sé að stóraukast og að samfélagsmiðlar á borð við Facebook, Instagram og Snapchat séu nýttir til að auglýsa þjónustuna. Oft sé boðið upp á að konunum sé skutlað hvert sem vændiskaupandinn vill. „Í raun er orðið jafn auðvelt að panta vændiskonu eins og að panta pizzu,“ segir hann. Vændisþjónusta sé þó mun dýrari hér á landi en í nágrannalöndum okkar.

Snorri segir að stærstur hluti einstaklinga í vændi hér á landi séu konur frá Rúmeníu og Ungverjalandi. Ljóst sé að þær séu í mörgun tilfellum sendar hingað til lands af þriðja aðila sem hagnist á þeim. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV