Einn Íslendingur enn ófundinn á Pumori

13.11.2018 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rling~commonswiki - Wikimedia Commons
Einn íslenskur fjallgöngumaður er enn ófundinn í hlíðum fjallsins Pumori í Nepal. Hann hét Ari Kristins Gunnarsson og fór á tind fjallsins í október 1991 þremur árum eftir að þeir Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson fórust í fjallinu. 

Ari var þrítugur sjómaður búsettur á Akureyri og hafði árið áður en hann hélt í sína hinstu för klifið næsthæsta fjall Evrópu, Mount Blanc. Hann segir í viðtali í dagblaðinu Degi í ágúst 1991 að hann viti að aðstæður geti orðið mjög erfiðar á Pumori en að tilhlökkunin fyrir ferðinni sé kvíðanum yfirsterkari. Hann var í leiðangri með breskum fjallgöngumönnum.

Þann 15. október 1991 segir í Degi að Ari sé talinn af. Þrír Bretanna hafi náð tindinum og að Ari hafi svo klifið tindinn einum eða tveimur dögum síðar en að svo virðist sem að hann hafi runnið til í snjó á leiðinni niður aftur. Júlíus Magnússon vinur Ara, sem Fréttastofa talaði við í morgun, segir að talið hafi verið að hann hafi lent í snjóflóði og fallið í sprungu. Ari lét eftir sig tvo unga syni. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi