Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Einn hættulegasti staðurinn fyrir börn

11.03.2014 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Fimm og hálf milljón barna þurfa á aðstoð að halda vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Fjöldi bágstaddra barna í Sýrlandi hefur tvöfaldast á einu ári.

Skýrsla UNICEF er gefin út í tilefni þess að senn eru þrjú ár liðin frá því að bardagar hófust í Sýrlandi. Skýrslan dregur upp dökka mynd af aðstæðum sýrlenskra barna. Sýrland sé í dag einn af hættulegustu stöðum á jörðinni fyrir börn. Tíu þúsund börn hið minnsta hafa fallið í borgarastyrjöldinni, og alls eru um fimm og hálf milljón barna talin eiga um sárt að binda vegna vargaldarinnar, búa við ófrið eða hafa þurft að flýja heimili sín. 

 

Versnandi ástand

Um milljón börn búa á svæðum sem setið hefur verið um mánuðum saman. Hjálparstofnanir eiga erfitt með að ferðast á þessi svæði, þar er oft brýnn skortur á mat og annari nauðsynjavöru og hungursneyð.  Í Jórdaníu, Líbanon og öðrum nágrannalöndum Sýrlands búa um 1,2 milljónir barna í flóttamannabúðum, og þar er einnig oft takmarkað framboð af drykkjarvatni og matvælum.

UNICEF segir að ástandið fari hríðversnandi og hefur fjöldi bágstaddra barna meira en tvöfaldast á tólf mánuðum, úr 2,3 milljónum í 5 og hálfa. Fjöldi barna á flótta innan Sýrlands hefur sömuleiðis þrefaldast á þessu tímabili, og fjöldi flóttabarna utan landamæra Sýrlands hefur fjórfaldast.

Þá segir í skýrslunni að vegna stríðsátakanna neyðist sýrlensk börn til að fullorðnast fyrr en eðlilegt er. Stofnunin áætlar að minnsta kosti tíunda hvert sýrlenskt flóttabarn þurfi að vinna fyrir sér, og fimmta hver sýrlensk stúlka í Jórdaníu sé neydd til að giftast á barnsaldri.