Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einn bekkur – fjórtán tungumál

10.01.2016 - 20:43
Mynd: Rætur / RÚV
Í 9. KB í Fellaskóla eru börn af þrettán mismunandi þjóðernum og þau tala fjórtán mismunandi tungumál. Þau tala allt frá nepölsku til serbnesku, kínversku, arabísku og albönsku. Móðurmál þriggja er pólska, tveggja er rússneska, þriggja er filippseyska og svo tala þau líka víetnömsku, ensku, bisaya, úkraínsku og íslensku.

Á Íslandi býr fólk frá rúmlega 140 löndum og tungumálin eru á að giska eitthvað yfir hundrað í heildina. Í þættinum Rótum, sem sýndur var á RÚV í kvöld, var meðal annars fjallað um sambýli íslenskunnar og allra hinna tungumálanna sem töluð eru á Íslandi í dag. Þá var rætt um hve mikilvægt er að hafa góð tök á eigin móðurmáli svo hægt sé að læra annað tungumál.

Í þættinum var farið í heimsókn til Lawins Þórs sem er sex ára gamall og getur þegar státað af meiri tungumálakunnáttu en flestir. Mamma hans er frá Filippseyjum, svo þau tala filippseysku sín á milli. Pabbi Lawins er spænskur og þeir tala spænsku sín á milli. Þar að auki er samskiptamál foreldra Lawins enska og hana lærir hann smám saman af því að fylgjast með þeim. Og svo er íslenskan auðvitað ótalin, sem þau tala annars öll.

Mynd: Lawin Þór, sex ára gamall og talar fjögur tungumál.

Rætur eru fimm þátta sería sem sýnd er á sunnudagskvöldum í janúar, kl. 19:45. Þar er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Í þættinum í kvöld var líka rætt við Davor Purusic, sem kom til Íslands árið 1993 eftir að hafa særst illa í stríðinu í heimalandi sínu, Bosníu. Í þættinum lýsti hann því hvernig er að lifa með eftirköstum stríðsins, bæði líkamlegum og andlegum.

Þá var sögð saga Charlotte Guðlaugsson í þættinum. Hún er ein af rúmlega þrjú hundruð Þjóðverjum, aðallega konum, sem flúðu Þýskaland eftirstríðsáranna og réðu sig til landbúnaðarstarfa í íslenskum sveitum. Helmingur þýska verkafólksins settist að á Íslandi og á í dag vel á annað þúsund afkomendur hér á landi. Einn þeirra er Sigríður Halldórsdóttir, umsjónarmaður Róta, barnabarn Charlotte.

Horfa má á þáttinn í heild í Sarpinum