Titill þessa dóms er bein vísun í opnunarlag þessarar plötu sem er ljúf en um leið gáskafull ska-stemma – með brassi og öllu. Yfir öllu sjálfur Helgi Björns, Hólí B, Hr. „Eru ekki allir sexí?“, tónandi kerknislegan texta sem hann og Atli Bollason semja. Þar fer persónulýsing á manni sem er nú endurbættur, „korter í vegan“. Amor brosir ekki blítt við okkar manni, þó að hann eigi gommu af aurum og eitthvað þarf að gera í málunum.
Atli og Helgi áttu síðast í samstarfi á hinni firnasterku Veröldin er ný (2015) en þar vann Guðmundur Óskar Guðmundsson einnig með Helga og þá að tónlistarlegu hliðinni. Virkilega vel heppnað stefnumót ólíkra kynslóða og afraksturinn heilsteypt og sannfærandi verk sem rann áfram eins og „flauelsmjúkt fljót“ svo ég vitni nú í sjálfan mig. Á þessari plötu snýr þetta þríeyki aftur, og er það vel. Auk þess á Pétur Ben hluta í einu lagi með Helga og aðrir hljóðfæraleikarar eru þeir Örn Eldjárn á gítara og raddir, Tómas Jónsson leikur á hljómborð og Magnús Tryggvason Eliassen sér um trommur (hver annar!). Margir aðrir koma við sögu í hinum og þessum hlutverkum, og ljóst að Helgi er umkringdur hæfileikafólki, eftir áratuga farsælan feril. Platan er stutt, átta laga, og tengist m.a. inn í afmælistónleika sem Helgi hélt í Laugardalshöll vegna sextugsafmælis síns, og verða fleiri tónleikar af því taginu í haust (meðal annars á Græna hattinum fyrir norðan).