„Einn af okkar allra bestu mönnum“

Mynd: Halla Harðardóttir / Halla Harðardóttir

„Einn af okkar allra bestu mönnum“

22.09.2018 - 09:00

Höfundar

Ég stoppa hnöttinn með puttanum er heiti á nýrri sólóplötu Helga Björnssonar. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötu vikunnar á Rás 2.

 

Titill þessa dóms er bein vísun í opnunarlag þessarar plötu sem er ljúf en um leið gáskafull ska-stemma – með brassi og öllu. Yfir öllu sjálfur Helgi Björns, Hólí B, Hr. „Eru ekki allir sexí?“, tónandi kerknislegan texta sem hann og Atli Bollason semja. Þar fer persónulýsing á manni sem er nú endurbættur, „korter í vegan“. Amor brosir ekki blítt við okkar manni, þó að hann eigi gommu af aurum og eitthvað þarf að gera í málunum.

Atli og Helgi áttu síðast í samstarfi á hinni firnasterku Veröldin er ný (2015) en þar vann Guðmundur Óskar Guðmundsson einnig með Helga og þá að tónlistarlegu hliðinni. Virkilega vel heppnað stefnumót ólíkra kynslóða og afraksturinn heilsteypt og sannfærandi verk sem rann áfram eins og „flauelsmjúkt fljót“ svo ég vitni nú í sjálfan mig. Á þessari plötu snýr þetta þríeyki aftur, og er það vel. Auk þess á Pétur Ben hluta í einu lagi með Helga og aðrir hljóðfæraleikarar eru þeir Örn Eldjárn á gítara og raddir, Tómas Jónsson leikur á hljómborð og Magnús Tryggvason Eliassen sér um trommur (hver annar!). Margir aðrir koma við sögu í hinum og þessum hlutverkum, og ljóst að Helgi er umkringdur hæfileikafólki, eftir áratuga farsælan feril. Platan er stutt, átta laga, og tengist m.a. inn í afmælistónleika sem Helgi hélt í Laugardalshöll vegna sextugsafmælis síns, og verða fleiri tónleikar af því taginu í haust (meðal annars á Græna hattinum fyrir norðan).

 

Ný plata með Helga Björns heitir Ég stoppa hnöttinn með puttanum.

 

Tríóið heldur áfram þar sem frá var horfið; glettnir textarnir fara vel með vandaðri tónlist og útsetningum. Þessir textar sem Atli og Helgi eru að leggja fram eru allt í senn, skemmtilegir og glúrnir – ekki eitthvað innihaldslaust blaður sem kastað er á blað kortér í töku – og maður fagnar satt að segja slíku. Allt of sjaldgæft í íslensku samtímapoppi. Helgi stendur svo eðlilega í stafninum hvað allan flutning varðar, sér um að glæða þessar smíðar lífi og sál. Platan er þó öðruvísi að upplagi en síðasta verk. Veröldin er ný bjó yfir miklum heildarhljóm, rúllaði í raun eins og eitt langt lag, þannig séð, en hér er meira um fjölbreytileika. Helgi er meðvitað að flagga ólíkum hliðum; ska-stemning í upphafi, „Dönsuðum á húsþökum“ er snaggaralegt popprokk á meðan „Vængir“ og „Ástin sefar“ eru fallegar ballöður. Helgi syngur þetta allt af natni og næmi, veit hvenær gefa skal í, veit hvenær það þarf gáska, veit hvenær angurværðin þarf að leggjast yfir. Ég verð svo að hrósa Guðmundi sérstaklega fyrir hljómavefnað sinn út plötuna og útsetningar hans og Helga eru fyrirtak en upptökustjórn var einnig í höndum þeirra tveggja. Lögin ná stundum kvikmyndalegum hæðum, það er barrokk-ára yfir á köflum, eitthvað sem mig grunar að Guðmundur hafi tekið með sér frá Hjaltalín-árunum.

Sem sagt, annars konar gripur en fyrsta útspilið, en blærinn samskonar og ég væri alveg til í að sjá Helga og káta kappa hans vinna fleiri plötur saman.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Umvafinn Ólafi Arnalds

Popptónlist

Sígilt nýbylgjurokk

Tónlist

Teitur nennir alltaf að dreyma

Popptónlist

Ræsis-söngvarnir rista djúpt