Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Einn æðsti maður Páfagarðs sekur um barnaníð

Mynd með færslu
 Mynd:
Einn af æðstu mönnum kaþólsku kirkjunnar, ástralski kardínálinn George Pell, hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur altarisdrengjum á tíunda áratugnum. Pell er fjármálastjóri Páfagarðs og sem slíkur þriðji maður í virðingarröð kaþólsku kirkjunnar. Hann var ákærður og leiddur fyrir rétt í Ástralíu í maí fyrra og sakfelldur í desember, en dómarinn í máli hans fyrirskipaði fréttabann sem ekki var aflétt fyrr en í dag.

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að Pell væri sekur um samtals fimm kynferðisbrot gegn tveimur altarisdrengjum, þá 12 og 13 ára gömlum, í skrúðhúsi dómkirkju heilags Patreks í Melbourne árið 1996, þegar hann var þar erkibiskup. Kardínálinn, sem gengið hefur laus gegn tryggingu, hefur jafnan neitað sök og gerir enn.

Rétta þurfti yfir honum í tvígang, þar sem kviðdómur kom sér ekki saman um niðurstöðu fyrri réttarhöldunum, sem fram fóru í september. Hann var svo sakfelldur í seinni réttarhöldunum, hinn 11. desember. Hann hyggst áfrýja dómnum.

Í innsta hring hjá Frans páfa

Nokkrum dögum eftir sakfellinguna tilkynnti Páfagarður að Pell væri ekki lengur í ráðuneyti Frans páfa, hópi kardínála og nánustu ráðgjafa kirkjuleiðtogans. Hann hefur hinsvegar haldið stöðu sinni sem fjármálastjóri Páfagarðs og þar með þriðji æðsti embættismaður kirkjunnar að nafninu til, þótt hann hafi verið í ótímabundnu leyfi frá störfum frá því honum var birt ákæran.

Fréttirnar af sakfellingu Pells berast aðeins tveimur dögum eftir að fjögurra daga ráðstefnu Páfagarðs um barnaníð kaþólskra presta lauk, þar sem Frans páfi líkti kynferðisglæpum kirkjunnar manna gegn börnum við mannfórnir. Pell var einn nánasti ráðgjafi hans árum saman og Benedikts páfa XVI á undan honum.

Fordæma fréttabann

Fréttabannið af réttarhöldunum yfir honum hefur verið harðlega gagnrýnt. Öllum fjölmiðlum og fréttastofum sem starfa í Ástralíu var stranglega bannað að flytja nokkrar fréttir af framvindu málsins og raunar var þeim óheimilt að greina frá því að Pell hefði verið ákærður yfirhöfuð. Gilti þetta jafnt um ástralska miðla sem erlenda, að viðlögðu allt að fimm ára fangelsi og/eða brottvísun. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV