Svavar Knútur hefur á undanförnum árum áunnið sér bæði virðingu og vinsældir fyrir einlæga og ástríðufulla tónlist en og hressandi hreinskipti í fasi jafnt sem framkomu. Þú færð það sem þú sérð, eins og sagt er, og með hjarta á ermi hefur Svavar náð að heilla tónlistarunnendur á öllum aldri. Svavar hóf sólóferilinn mikið til með órafmögnuðu efni, rækilega í söngvaskáldagírnum, en á síðustu plötu, Brot, gerði hann tilraunir með annars konar nálganir. Stigið í vænginn við rokk og ról og sum lögin „tilbúin til útflutnings“ eins og sagt er, ekki fjarri því sem margar ágætar og aðgengilegar nýbylgjurokkssveitir eru að stunda.
Fjölbreytt
Nýju lögin hérna eru á svipuðu rófi og sem fyrr er það fjölbreytileikinn sem ræður ferð. Ég sagði í síðasta dómi að Svavari tækist að „víkka út tónmálið án þess að missa niður kjarnann í því sem hefur komið honum svona langt.“ Það sama á við hér. Sjá t.d. fyrsta lagið, „The Hurting“. Þungur stígandi, dálítið myrkur yfir en nokk eftirtektarverð smíð engu að síður. „Lady Winter“ stendur nær því sem Svavar Knútur var að gera í upphafi, þjóðlagasmíð alger og flæðið fallegt. Söngur tær og melódískur eins og alltaf. „Morgunn“ er gott. Grípandi smíð og ákefð stýrir málum. Nú ert birtan komin og smekklegir strengir gára undir framvindunni. Þetta er vel samið lagið og sýnir að Svavar er farinn að kunna þá list upp á tíu. Melódískt og eftirminnilegt, án þess að vera í einhverri eftiröpun og persónulegur stimpill einkennir það. „Haustvindar“ situr í Sigur Rósar-legri epík en besta lagið er samt „Cheap Imitations“. Dálítið furðulegt lag, kenjóttir snúningar í upphafi og röddin í nokkurs konar John Grant gír, baritónninn ræður för. Tilraun sem er skemmtileg og lagið stendur dálítið út fyrir rest. Það væri athyglisvert að heyra Svavar elta þessa braut frekar eitthvað í framtíðinni.