Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Einlægt og ágengt

Mynd: María Kjartans / Biggi Hilmars

Einlægt og ágengt

11.11.2017 - 09:15

Höfundar

Dark Horse er sólóplata Bigga Hilmars sem hefur starfað í sveitunum Ampop og Blindfold m.a. auk þess að vera mikilvirkt auglýsinga- og kvikmyndatónskáld. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Biggi hefur verið ansi iðinn við tónlistarkolann undanfarin ár og sinnt honum á margvíslegan hátt. Á síðasta áratug var hann t.d. meðlimur í Ampop, sem sló nánast í gegn með síðustu plötu sinni, Sail to the Moon (2006). Fyrsta sólóplatan kom svo út 2012 (All We Can Be) og þetta er gripur númer tvö af því taginu.

Mynd með færslu
 Mynd: Biggi Hilmars

Einkenni

Opnunarlagið, „Soft Entrance“, slær tón sem er nokkuð einkennandi fyrir heildina. Falleg, einlægt og innilegt lag, sem afvopnar hlustandann og sendir hann inn í draumheima. Auðvitað er byggt á störfum Bigga við auglýsingarnar og kvikmyndirnar, annað væri eðli málsins samkvæmt ómögulegt, en hann passar sig þó á því að platan sé ekki eins og kvikmyndatónspor án kvikmyndar. Poppið er með yfirhöndina, þetta eru meira og minna dægurlög með hefðbundinni byggingu sem njóta þó góðs af reynslu höfundarins við að búa til áhrifaríkar hljóðmyndir. Þannig hljómar platan dásamlega, mjúkur og umlykjandi tónn út í gegn.

Sjá t.d. „Freedom is a Distant Dream“ sem einkennist af blæstri, stálgítar, marserandi trommum og ljúfri falsettu. Vel heppnuð smíð sem er leidd út með knýjandi píanóstefi. Líka sögu má segja af „Calm“, blástur leiðir framvinduna og feitt áttunda áratugs hljómborð (líkt og Air-félagar nýttu sér á Moon Safari) kíkir í heimsókn. Þessi tilfinnanlega einlægni fer þó með Bigga á villigötur í nokkrum tilfellum. „Grow“ er hreinlega of væmið til að ná tilgangi sínum, svo ég orði það hreint út. Svipað er með „Detached“ og titillagið, sem eru bara full mikið af hinu góða. Ábreiða yfir „Imagine“ John Lennon er þá misráðin.

Heiðrun

„Protection“ er vel til fundnari heiðrun handa Bítlinum gamla, rúllar fallega í hans anda og plötunni er lokað með prýðis smíðum. „Spegilmynd“ er í knýjandi, áköfum takti; hvassir strengir, blástur og trommur og svo er klykkt út með „Dark Departure“, sem er í senn epískt og kröftugt.  Styrkur plötunnar er hreinskiptin nálgun Bigga þó að sú nálgun feli um leið í sér misfellur eins og ég hef nefnt. Sýrópskrukkan er vandmeðfarin. En eins og ég nefni enn frekar, þá eru menn að ná landi, heilt yfir. Plúsarnir eru fleiri en mínusarnir.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Dark Horse

Popptónlist

Gáskafullir gaurar, reffilegar rímur

Tónlist

Melankólískt og mikilúðlegt

Tónlist

Þagnarsveipurinn sunginn í burtu