Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einlægt nútímapopp

Mynd með færslu
 Mynd: Svanhildur Gréta - Artist Facebook

Einlægt nútímapopp

27.09.2019 - 11:04

Höfundar

Best gleymdu leyndarmálin er fyrsta plata tvíeykisins Hipsumhaps. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

„Strákarnir segjast vera hljómsveit í nútímaskilningi. Í dag geta hljómsveitir samanstaðið af pródúser og lagahöfundi,“ segir í viðtali við þá Fannar Inga Friðþjófsson og Jökul Breka Arnarson sem flutt var á útvarp 101. Já, og þannig er það eiginlega með þessa fyrstu plötu Hipsumhaps. Nútímapopp sem er forunnið af þeim tveimur en svo fullunnið af fleiri hljóðfæraleikurum.

Íslensk varðeldastemning

Það er hressandi, í tónlistarlandslagi sem er uppfullt af hipphoppi, svölu r og b eða stíliseruðu tölvupoppi að heyra plötu sem er óskammfeilið popp. Það er eitthvað, tja, jarðbundið við þetta, get ekki orðað það öðruvísi. Söngvaskáldablær á stundum, varðeldastemning (sjá hið Mugisonlega „Hvað er að“) og ég hugsa stundum um Sálina, jafnvel Skímó. Já, ég var að skrifa þessa setningu. Alveg ískaldur. Það er eitthvað „íslenskt“ við þessa plötu, hún er eiginlega heimilisleg.

Mynd: RUV / RUV
Hipsumhaps tóku lagið í Vikunni með Gísla Marteini í byrjun september.

Má ég byrja á því að hrósa textagerð? „LSMLÍ (lífið sem mig langar í)“ inniheldur hendingar eins og „lífið er svo óljóst/það veit enginn hvað er að gerast“ og „Eignast tvö, þrjú börn/Senda stelpuna í Vindáshlíð/þetta er lífið sem mig langar í“. Tónlistin ljúft og áreynslulaust popp, og bara giska grípandi. Þetta er eins og að hlusta á uppfærða útgáfu af Bráðabirgðabúgíi Spilverksins. Fleiri sniðugheit er að finna út í gegnum plötuna, glúrnir textar, ortir á góðri íslensku. Plata þessi er nokkuð fjölbreytt, fínasta stílaflökt að finna, og er það vel. „Fuglar“ hefst til að mynda á hráum rafgítar en flækist þó ekki út í eitthvað rokk og ról. Poppsýnin ræður för sem fyrr, þó að þetta tiltekna lag slagi nú ekki upp í neinar hæðir. Hálfgert frákast („throwaway“).

Frambærilegur frumburður

„Skammdegi“ lýsir þessu staðbundna ástandi sem við Mörlandar þurfum að þola á veturna, og Fannar syngur það vel. Hann býr yfir einlægri rödd, dregur mann inn og heldur manni fókuseruðum. Þetta er einlægt og stælalaust allt saman, minnir á ofureinlægt indípopp að hætti Clairo og Rex Orange County. Sjá „Honný“, þar sem rödd Fannars er algerlega miðlæg. Kinnroðalaus ástarsöngur sem segir meðal annars: „Svona er, svona er, svona er að vera ógeðslega ástfanginn“. Einfalt, já, en svo er tekinn flóknari snúningur í „Augu“: „Af hverju getum ekki verið tvö í útlöndum/Því að í útlöndum eru engar áhyggjur“. Snilldarlína og segir svo margt um hvernig maður hugsar þessar utanfarir oft. Lagið dularfullt og seyðandi.

Skemmtilegur frumburður hjá piltunum. Stöku „hundar“ innan um, en annars er þetta hið frambærilegasta lagasafn. Sem fyrsta innslag er þetta prýðilegt og vel það!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Með heiminn á herðunum

Popptónlist

Hipsumhaps - Best gleymdu leyndarmálin

Popptónlist

Blúsað og rokkað

Tónlist

Enginn veit hvað hann er að gera