Eining um endurskoðun á útlendingalögum

18.09.2017 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson
Ekki er eining um það meðal þingmanna að afgreiða frumvarp Loga Einarssonar, formanns Samfylkingar, um veitingu ríkisborgararéttar til barnafjölskyldna frá Afganistan og Nígeríu. Meiri vilji er til að breyta lögum um útlendinga.

Formenn flokka á Alþingi áttu fund nú í dag þar sem rætt var um framhald þingmála í ljósi stjórnarslita. Að sögn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingar, þá var ekki eining um að taka frumvarp hans um veitingu ríkisborgararéttar á dagskrá. „Það var aftur á móti eining um að taka útlendingalög til endurskoðunar. Ég lýsti því skýrt yfir að ef það á ekki eftir að leiða til neins fyrir þessar fjölskyldur, þá ákalla ég þingmenn um að styðja þennan neyðarventil sem frumvarpið um ríkisborgararétt er,“ segir hann.

Logi kveðst vongóður um stuðning þingmanna Pírata og Vinstri grænna við frumvarpið. Gangi ekki eftir að koma á breytingum á útlendingalögum í gegn á þeim stutta tíma sem er til kosninga, þá kveðst hann vongóður um að hluti þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar styðji frumvarp hans um íslenskan ríkisborgararétt fyrir fjölskyldurnar tvær. „Samstaða um að endurskoða útlendingalög er ákveðinn sigur. Í mínum huga hefðu núverandi lög þó átt að nægja til áframhaldandi búsetu hér á landi en það virðist vera sem vilji stjórnsýslunnar sé annar. Því er mikilvægt að Alþingi tali á skýran hátt.“ Hann á ekki von á að fjölskyldunum verði vísað úr landi áður en niðurstaða í málinu liggur fyrir á Alþingi.

Mynd með færslu
Logi Einarsson, formaður Samfylkingar. Mynd: Skjáskot - RÚV

Feðginin Abrahim og Haniye Maliki frá Afganistan fengu í síðustu viku frest á brottvísun úr landi og er mál þeirra nú hjá kærunefnd útlendingamála. Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni er ekki ljóst hvenær niðurstaða í máli feðginanna liggur fyrir. Haniye er 11 ára gömul og án ríkisfangs. 

Fjölskyldan frá Nígeríu samanstendur af hjónunum Joy Lucky og Sunday Iserien og átta ára gamalli dóttur þeirra, Mary Lucky. Hún fæddist á Ítalíu. Mál fjölskyldunnar er til afgreiðslu hjá Útlendingastofnun. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi