Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einhugur um rannsókn á aðkomu þýska bankans

25.05.2016 - 19:58
Mynd: ruv / ruv
Stjórnvöld hyggjast láta rannsaka aðkomu þýska bankans Hauck und Aufhäuser að kaupum á eignarhluta ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003. Þetta segir fjármálaráðherra. Af slíkri rannsókn sé hægt að læra.

Umboðsmaður Alþingis telur að upplýsingar sem hann hefur undir höndum gefi tilefni til að rannsaka aðkomu þýska bankans að kaupunum.  Hann kynnti afstöðu sína á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. 

Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að upplýsingarnar styrki þann grun um að villt hafi verið fyrir íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma og mögulega hafi þýski bankinn verið leppur fyrir innlenda fjárfesta. Hún hafi fyrst fengið að heyra einungis degi fyrir söluna á Búnaðarbankanum, að annar banki en um hafi verið rætt, kæmi að kaupunum. Hún hafi treyst ráðgjöf breska bankans HSBC - sennilega alltof vel.

Enski bankinn HSBC starfaði við söluferli Landsbankans 2002 og Búnaðarbankans 2003. Í rannsóknarskýrslu Alþingis er haft eftir Valgerði að ráðherranefnd um einkavæðingu hafi aldrei í söluferlinu haft bein samskipti við eða hitt ráðgjafa frá HSBC. Í ályktun rannsóknarnefndarinnar segir:

"Það verður ekki annað séð en stjórnvöld hafi alfarið lagt í hendur HSBC að ákveða hvaða vægi ætti að gefa einstökum atriðum, bæði faglegum og fjárhagslegum, við mat á því hvaða aðila ríkið ætti að velja til frekari viðræðna um sölu á eignarhlutunum." 
Skarphéðinn Berg Steinarsson, sem var skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins og starfsmaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, sá um samskipti ríkisins við HSBC.

 Hann furðar sig á ummælum Valgerðar. 

„Nú vitum við ekki hvað er í þessum gögnum og það er ekkert sem ég hef heyrt um það sem er í þessum gögnum sem gefur tilefni til að álykta eitthvað sérstakt út frá þeim. Það væri hinsvegar áhugavert að fá að vita hvaða gögn þetta eru sem umboðsmaður er með og hvort það breytir einhverju um eitthvað sem menn vita um þetta. Ráðgjöf HSBC var afar fagleg og traust eins og ég kynntist henni og það er ekkert komið fram sem gefur tilefni til þess að hafa aðra skoðun á því,“ segir Skarphéðinn Berg.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vill að aðkoma þýska bankans að kaupunum á Búnaðarbankanum verði rannsökuð, og telur að einhugur verði um það á þingi.

„Já ég held að það sé sjálfsögð krafa að þær upplýsingar sem hægt er að fá komi upp á borð og við skoðum þær. Ég held að þær geti ekki haft í sjálfu sér miklar afleiðingar en þær að við getum lært af því að stjórnvöld hafi mögulega verið að taka ákvarðanir án þess að hafa heildaryfirsýn eða allar nauðsynlegar upplýsingar við hendina,“ segir Bjarni. „Svo sannarlega eigum við að taka svona mál til skoðunnar og fá fram það sem hægt er?“

Willum Þór Þórsson, sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir Framsókn, segir þingflokkinn einhuga um að rannsókn á þessu máli hefjist sem fyrst.