Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einhugur um að skoða Landsréttarmálið betur

20.12.2017 - 18:21
Helga Vala Helgadóttir. - Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Einhugur er um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að fara betur ofan í saumana á Landsréttarmálinu svokallaða, í kjölfar dóms Hæstaréttar frá því í gær þar sem dómsmálaráðherra var talinn hafa brotið gegn tveimur umsækjendum um dómarastöður við réttinn. Nefndin hittist á fundi um málið í dag.

„Við ætlum að kalla sérfræðinga á okkar fund strax á nýju ári, bæði umboðsmann Alþingis og sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að fara aðeins yfir stjórnskipulega stöðu ráðherra í kjölfar þessa dóms og einnig stöðu þingsins sem samþykkti jú tillögu ráðherrans,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. „Við ætlum líka að skoða hver eigi að setja reglurnar í framhaldinu, hvort ráðherra njóti trausts til að setja reglur um sín störf.“

Helga Vala segir að það hafi einnig verið samþykkt einum rómi að kalla eftir gögnum úr dómsmálaráðuneytinu um málið og málsmeðferðina. Hún segir að fólk hafi verið nokkuð sammála á fundinum.

„Það var lítið um harðar, skiptar skoðanir. Ég held að það skynji allir alvarleika málsins. Ég held að það sé mikilvægt að Landsréttur, hið nýja dómstig, njóti trausts og það er auðvitað viðkvæmt mál að það fari af stað með þessum hætti,“ segir Helga Vala Helgadóttir. Nefndarmenn hafi á fundinum lýst áhyggjum af því að þetta gæti rýrt traust á dómnum og því að staða ráðherrans væri veik.

„Svona lagað er aldrei heppilegt“

Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, sat fundinn í stað Brynjars Níelssonar, sem er vanhæfur í málinu vegna þess að eiginkona hans, Arnfríður Einarsdóttir, er einn af fimmtán dómurum við Landsrétt.

Birgir segir að dómurinn sé endanleg niðurstaða málsins. „Ég er fyrir mitt leyti ekki sammála þessari niðurstöðu en hún auðvitað stendur sem endanleg niðurstaða þessa máls,“ segir hann.

Er þetta ekki óheppilegt?
Svona lagað er aldrei heppilegt og það er auðvitað vont þegar það kemur upp mismunandi túlkun að þessu leyti,“ segir hann og ítrekar að dómurinn sé endanleg efnisleg niðurstaða.

Hann segist ekki hafa miklar áhyggjur af því að niðurstaðan rýri traust til Landsréttar. „Ég held að allir hafi verið sammála um það að bæði þeir dómarar sem voru skipaðir og þeir sem ekki voru skipaðir en fengu góða umsögn hjá matsnefnd voru vel hæfir til þess að vera að dómarar við Landsrétt þannig að ég held að Landsréttur sem slíkur geti hafið störf án þess að nokkur efist um hæfi eða hæfni þeirra manna sem þar sitja.“

Hann segir að á fundinum hafi nefndarmenn velt fyrir sér niðurstöðu Hæstaréttar og hvaða áhrif hún hefði á störf nefndarinnar, sem hefði áður fjallað um málið. „Nefndarmenn voru sammála um að næstu skref væru þau að ræða við sérfræðinga um það með hvaða hætti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti komið að þessu,“ segir Birgir. „Svo er auðvitað líka verið að ræða það hvort niðurstaða Hæstaréttar í þessum efnum kalli á það að einhver lagaákvæði verði skýrð eða breytt með einhverjum hætti.“

Birgir segir að eining hafi verið um þetta. „Já, menn voru sammála um að það væri rétt að taka þetta til umfjöllunar, fara yfir dóminn og meta hvort það eru einhverjir þættir sem þarf að kanna nánar. Persónuleg skoðun mín er sú að dómurinn tali sínu máli svo langt sem hann nær, en hins vegar leggst ég ekki gegn því að menn fari í slíka athugun og slíkar umræður.“

„Hún er náttúrulega ráðherra í þessari ríkisstjórn áfram“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni, segir að á fundinum hafi verið farið yfir málið eins og hægt væri jafnskömmu eftir að dómurinn féll. „Ég hef lagt það til og lagði til núna á fundinum að nefndin mundi hafa frumkvæði að því að fara í að skoða almennilega allt regluverk og lagaumhverfi er lýtur að dómstólum og skipan þar og því ferli öllu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi taki frumkvæði í því akkúrat núna við þessar aðstæður,“ segir Kolbeinn.

Hann segist ekki vita hvort niðurstaða Hæstaréttar muni hafa áhrif á traust almennings til Landsréttar. „Dómur er fallinn og ég ætla ekki að segja til um hvaða áhrif það hefur á hug fólks – ég vona ekki, það er mjög mikilvægt að fólk beri traust til þessa nýja dómstóls og hefði náttúrulega verið mjög gott ef það hefði farið af stað í meiri sátt,“ segir hann.

Spurður hvort staða Sigríðar Andersen sem ráðherra hafi breyst svarar Kolbeinn: „Hún er náttúrulega ráðherra í þessari ríkisstjórn áfram, staða hennar hefur ekki breyst hvað það varðar.“