Einhliða fréttir af ísjökum og hvítabjörnum

21.10.2018 - 17:53
Einhliða fréttir af ísjökum og hvítabjörnum eiga þátt í vaxandi vantrausti á hefðbundna fjölmiðla þegar fréttir eru sagðar af Norðurslóðum segir Miyase Christensen, prófessor við Stokkhólmsháskóla. Slíkar fréttir segi lítið um hvað sé að gerast í raun og veru

Hin mikla aðsókn á Arctic Circle ráðstefnuna sem lauk núna síðdegis endurspeglar að einhverju leyti vaxandi áhuga fólks á loftslagsbreytingum og því sem er að gerast á Norðurslóðum. Miyase Christensen, frá Texas í Bandaríkjunum  er prófessor í fjölmiðlafræðum við háskólann í Stokkhólmi. Hún fjallaði á þinginu um mikilvægi þess að fjölmiðlar greini rétt frá. 

„Umfjöllun alþjóðlegra fjölmiðla um málefni norðurslóða einkennist af staðalímyndum, oft í tengslum við loftslagsbreytingar við heimskautssvæðið og afleiðingar þeirra fyrir heimsbyggðina, gjarnan í sambandi við jökla, hvítabirni og önnur dýr.“

Myndin sem fjölmiðlarnir dragi upp sé of einföld og í raun ekki rétt. „Þegar norðurslóðir eru annars vegar og umfjöllun um loftslagsbreytingar eru falsfréttir í raun ekki aðalvandamálið. Aðalmálið er traust.“

Traust á fjölmiðlum hafi minnkað mikið í Svíþjóð á undanförnum árum og í Bandaríkjunum hafi það nánast hrunið. Mjög erfitt sé að fá upplýsingar frá Rússlandi. „Rússland á meira en helming strandlengjunnar við heimskautsbaug og að fá upplýsingar frá Rússlandi um þróun mála á norðurslóðum er því miður afar erfitt og verður æ erfiðara.“ 

Nokkrir sérhæfðir fjölmiðlar eins og Arctic Today og The Independent Barents Observer hafi reynt að setja fréttir af norðurslóðum í betra samhengi. Mikilvægt sé að þeir lognist ekki út af. Hefðbundnir fjölmiðlar megi ekki einfaldi myndina of mikið.

„Það má ekki einskorða umfjöllunina við hvítabirni eða ísjaka sem hrynja. Það er áríðandi vegna þess að flestir fá sínar fréttir frá þessum fréttaveitum. 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi