Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Einfalt að útbúa sprengju á Íslandi

25.07.2011 - 19:44
Ekkert eftirlit er haft með því hverjir kaupa áburð hér á landi. Yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar segir einfalt að útbúa sprengju á borð við þá sem sprengd var í Osló á föstudaginn.

Fjögur fyrirtæki flytja inn áburð hingað til lands. Eitt þeirra, Búvís, flytur inn og selur ammóníum nítrat-áburðinn Kraft 34, sem í daglegu tali er nefndur kjarni. Það er sami áburður og Anders Behring Breivik notaði til að búa til sprengjuna sem olli gífurlegu tjóni í miðborg Oslóar á föstudag. Talið er að Breivik hafi notað um 500 kíló af áburði til að búa sprengjuna til, en sama magn myndi kosta um 35 þúsund krónur hjá Búvís. Fleira þarf þó til en áburð til þess að búa til sprengju á við þá sem Breivik sprengdi í Osló.

Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir að blanda þurfi áburðinn í réttum hlutföllum og með þeim efnum sem í það þurfi. Hins vegar sé þetta fremur einfalt. Upplýsingar liggi fyrir á netinu og erfitt að fjarlægja það þaðan.

Mannvirkjastofnun hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um geymslu á Kjarna, enda er hann flokkaður sem sprengiefni. Þá gilda mjög strangar reglur um flutning á efninu, bæði á sjó og landi. Ekkert eftirlit er hins vegar með því hver kaupir áburðinn - og getur því hver sem er gert það. Sigurður segir að eftir því sem honum skiljist geti hann farið og keypt fimm tonn af áburði eða eitthvað þvíumlíkt. Spurning sé hvort skoða þurfi hvort hægt sé að koma í veg fyrir það að hver sem er geti bara farið og keypt eins mikið magn af áburði og honum lysti.

Hann vonar að atburðirnir í Noregi verði til þess að vekja umræðu um þessi mál hér á landi. Þetta hafi oft komið til umræðu í gegnum tíðina og alltaf þurfi einhvern svona hörmungaratburð til að vekja upp svona umræðu.