Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Einfaldara, harðara og mun þyngra

Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / Canon Mark 1D-X

Einfaldara, harðara og mun þyngra

14.07.2017 - 10:12

Höfundar

Eldraunir er þriðja hljóðversplata hinnar „nýju“ Dimmu og er hinu magnþrungna en um leið melódíska þungarokki sem hefur aflað henni mikilla vinsælda viðhaldið sem fyrr. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Það er óhætt að segja að hljómsveitin Dimma, hugarfóstur bræðranna Ingólfs og Sigurðar Geirdal (Ingó og Silli) hafi gengið í gegnum endurnýjun lífdaganna þegar þeir Birgir Jónsson trymbill og Stefán Jakobsson söngvari gengu til liðs við hana. Frá fyrstu plötu, Myrkraverk (2012), var ljóst að hér var kominn eiturþéttur kvartett og fylgi við sveitina jókst með hverjum tónleikum. Dimma hnykkti enn frekar á vinsældunum með plötunni Vélráð (2014) og nú eru það Eldraunir, sem lokar óformlegum þríleik. Sveitin hefur verið með ólíkindum virk og dugleg á þessu tímabili, rokkað feitt á meðan eðli og eigindir mannskepnunnar hafa verið skoðaðar í textum. Fyrsta platan tók almennt á þeim andstyggilegheitum sem við erum fær um að beita á meðan Vélráð tók á þeim brögðum og brellum sem við notum einatt til að ná völdum yfir öðru fólki. Plöturnar bera lýsandi nöfn og eins er með þetta verk hér sem fjallar um þá erfiðleika og hindranir sem við öll mætum í þessu basli sem lífið er.

Einfalt

Eldraunir er án vafa þyngsta verk Dimmu til þessa og um leið er minni áhersla á flóknar útsetningar eins og stundum var áður. Semsagt, straumlínulagaðra verk. Þungt, einfalt og glúrnar útsetningar sem hitta í mark. Svona plötur gera sveitir þegar þær eru búnar að spila sig til og finna sinn hljóm. Platan hljómar enda frábærlega, hárrétt jafnvægi í öllu og ekki þarf að fjölyrða um hljóðfæraleik og söng sem er í hæsta gæðaflokki. Dimma spilar einfaldlega þungarokk, eins hjákátlega og það kann að hljóma hjá mér, en það er einmitt málið og ástæða vinsælda hennar. Sígilt þungarokk þar sem bæði er sótt í harðneskju og keyrslu nútíma þungarokks en um leið í gamla skólann, þar sem tekið er ofan fyrir harðrokkshetjum eins og Scorpions, Dio, Priest, Sabbath og fleirum. Það var greinilega vöntun á nákvæmlega svona sveit, sem er ekkert að flækja hlutina um of. Það hefur líka verið gaman að sjá hvernig meðlimir eru að finna sig í þessum aðstæðum. Eitthvað small greinilega saman á sínum tíma. Stefán, sem hafði verið hálf umkomulaus í hinum og þessum böndum, fann sig t.a.m. fullkomlega hér og sama má segja um bræðurna og Birgi. Þegar maður finnur fyrir þessum „fíling“, eykur það á upplifunina.

Innilegt

Vegferðin að þessu verki var annars þyrnum stráð og sveitin sótti sér aðstoð hjá sálfræðingi á tímabili sem opnaði á betra og innilegra samstarf. Samkvæmt Birgi var þetta því erfiðasta en um leið auðveldasta plata sveitarinnar. Rokkið er nú fyrst og síðast lífsstíll, lífsspeki í raun og hugarfarið hefur í raun allt að segja. „Eitt bros getur Dimmu í dagsljós breytt.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Eldraunir

Tónlist

Söngur sem vefur sig um hlustandann

Popptónlist

Bláeygar sálir í svellkaldri sveiflu

Tónlist

Þessi rödd, þessi gítar, þessi djúpa þrá