Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eineltismál erfið vegna netnotkunar

06.05.2016 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Lee Morley - flickr.com
Skrifstofustjóri hjá skóla- og frístundasviði segir Austurbæjarskóla hafa tekið vel á eineltismálinu, sem var aðdragandi líkamsárása á þriðjudag sem var tekin upp og sett á samfélagsmiðla. Slík mál teygi sig þó oft út fyrir skólann og þá geti verið erfitt fyrir skólastjóra að taka á því.

Fjórar stúlkur, þar af tvær úr Austurbæjarskóla, réðust á aðra stúlku úr skólanum á þriðjudag. Árásin var tekin upp og myndskeiði af henni dreift í gegnum samfélagsmiðla. Stíf fundahöld hafa verið í skólanum og á skóla- og frístundasviði og hefur skólastjóri meðal annars rætt við hvern bekk um málið.

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur stutt við skólann og stúlkuna, sem varð fyrir árásinni, frá því að hún byrjaði í skólanum skömmu fyrir áramót. Guðlaug Sturlaugsdóttir skrifstofustjóri grunnskólahluta segir að svona mál teygi sig út fyrir skólann, rétt eins og þetta mál geri. „Og það er svo mikið af hlutum sem gerast utan skólans, á kvöldin og um helgar, vítt og breytt, sem við höfum enga stjórn á og höfum ekkert yfir að segja í raun, en teygir síðan anga sína inn í samskiptin í skólanum. Þannig að það reynist skólastjórum oft erfitt að taka á þessu.“

Guðlaug segir að ferli í eineltismálum séu til staðar í öllum grunnskólum og á skóla- og frístundasviði. Í þá sé hins vegar ekki farið ef menn hafa ekkert í höndunum. „Við rekum ekki bara börn úr skóla fyrir atvik sem gerist utan skóla. Við getum ekki farið að setja börn í einangrun út af einhverju slíku. Við höfum ákveðna lagaskyldu, okkur ber að sinna öllum börnum og sjá þeim fyrir menntun.“

Guðlaug segir að samfélagið þurfi að huga að netnotkun barna og unglinga, og samskiptunum sem þau eru í. „Þau fara á bak við okkur þarna. Við vitum það alveg, það sýna allar rannsóknir. Við þurfum að finna þessi forrit, kunna á þau og geta farið inn í þau. Við sem erum komin yfir fertugt erum nýbúar í netheimum þannig að kannski þurfum við að fá sérkennslu í þessum efnum.“

Þetta geti hjálpað mikið til, þó að það firri ekki skólana ábyrgð. Guðlaug segist skilja gagnrýni föður stúlkunnar, sem gagnrýndi skólann fyrir úrræðaleysi í málum dóttur sinnar. Eðlilegt sé að hann upplifi stöðuna svona. „Ég get aftur á móti sagt að það hefur heilmikil vinnsla verið í gangi í skólanum í þessum málum og það hefur verið gert mjög vel. En það hefur verið í gangi í skólanum og auðvitað sjá foreldrarnir það ekki.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV