Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Einelti - Ólafur Arnalds vann úr því með hjálp

06.05.2016 - 19:26
Ólafur Arnalds tónlistarmaður, sem lenti í mjög alvarlegu einelti í grunnskóla, segir afar mikilvægt að foreldrar gerenda viðurkenni vandamálið og að jafnmikilvægt sé að vinna í málum gerenda eins og fórnarlambanna.

Táraðist við að horfa á fréttina

Sjónvarpsfréttin í gærkvöld þar sem sýnd var fólskuleg árás nokkurra grunnskólastúlkna á skólasystur sína hafði meðal annars áhrif á tónlistarmanninn Ólaf Arnalds. Hann segir á Facebook að hann hafi tárast við að horfa á hana. Hann sagði líka frá alvarlegu einelti sem hann sjálfur varð fyrir í grunnskóla en hann segist ekki oft hafa tjáð sig um það. 

Faldi sig undir borði í frímínútum

Ólafur segist á Facebook ekki hafa þorað út í frímínútur, heldur falið sig grátandi undir borði í skólastofunni meðan krakkarnir börðu á gluggana til að hræða hann út. Hann var ekki tekinn alvarlega fyrr en 12 ára þegar mamma hans stoppaði hann við að sækja hníf heima hjá sér sem hann ætlaði að nota til að stinga fólk. Og krakkarnir lágu líka á glugganum heima hjá honum og gerðu grín að því daginn eftir að hefði vera að gráta hjá mömmu sinni.  

Foreldrar gerenda viðurkenni vandamálið

„Ég held að mín saga sé ein af þessum sögum, sem endaði bara nokkuð vel. Það var gripið inn í tímanlega og allir komust bara ágætlega út úr þessu. En það gerist auðvitað ekki alltaf og ég held að þetta sé rosalega mikið, fyrir utan auðvitað skólayfirvöld og allt það, sem þurfa að standa sig mun betur í þessum málum, það mikilvægasta, sem ég tók eftir er alla vega, sem ég man eftir, er að foreldrar gerenda að þau viðurkenni vandamálið. Ég held að það sé mjög algengt að foreldrar gerenda séu í smáafneitun með þessi mál og trúi þessu ekki upp á krakkana sína. En um leið og þau geta viðurkennt vandamálið og talað við börnin sín þá held ég að stóru skrefi sé náð.“

Mikilvægt að vinna í málum gerendanna

Hann segir á Facebook að einelti sé líka mjög alvarlegt fyrir gerendurna því þeir þurfi líka að vinna sig út úr þessu. Hann segist telja að í rauninni leggi enginn í einelti nema að það sé eitthvað að. „Það þarf ekki endilega að vera eitthvað stórvægilegt. Ég hef lesið mér aðeins til um þessi mál og svona einkenni gerenda eru oft að þetta er fólk, sem hefur ekki mikla samúð og á erfitt með að setja sig í spor annarra til dæmis. Og það er bara ekki eiginleiki, sem maður vill að fólk hafi úti í samfélagi þegar það fullorðnast. Maður man kannski eftir ákveðnum gerendum, sem eru kannski ekkert á rosalega góðum stað í lífinu í dag. Þannig að í rauninni finnst mér alveg jafn mikilvægt að vinna í málum þeirra og fórnarlambanna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur tekur við BAFTA - verðlaununum árið 2014

Hjá mér var gripið inn í nógu snemma

Ólafur hlaut BAFTA-verðlaunin árið 2014 Hann er á kafi í tónlistarsköpun og vinnur með tónlistarmönnum víða um heim. En náði hann þá alveg að vinna sig út úr þessu? „Já, já, ég myndi segja það, eins og ég segi hjá mér var gripið inn í nógu snemma og ég er rosalega þakklátur fyrir það, bæði mínum foreldrum og foreldra þeirra, sem voru gerendurnir í mínum málum. En svo er það náttúrulega bara líka þannig að tónlistin er kannski þess eðlis að það er gott að leita í hana þegar eitthvað bjátar á. Þannig að þetta passar allt saman hjá mér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV