Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einbúavirkjun í mat á umhverfisáhrifum

14.09.2018 - 09:22
Mynd með færslu
 Mynd: Verkís
Tillaga um mat á umhverfisáhrifum Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti hefur nú verið auglýst. Um er að ræða rennslisvirkjun í landi Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal.

Litluvellir ehf., sem áformar að reisa Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti, hefur lagt fram tillögu að áætlun um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Uppsett afl hennar er 9,8 megawött þar sem nýtt verður um 24 metra fall á um það bil 2,5 kíómetra kafla í fljótinu.

Gert er ráð fyrir að reisa 200 metra langt flóðvirki þvert yfir Skjálfandafljót um 300 metra ofan við bæinn Kálfborgará. Þaðan veður vatni veitt úr Skjálfandafljóti um 1,3 kílómeta langan aðrennslisskurð að stöðvarinntaki þar sem Kálfborgará rennur í Skjálfandafljót. Stöðvarhús verður reist skammt neðan við inntakið og þaðan verður um 1,2 kílómetra langur frárennslisskurður út í Skjálfandafljót á móts við bæinn Einbúa, um 800 m neðan við ármótin við Kálfborgará. Vegna framkvæmda við virkjunina þarf að grafa upp um 330.000 rúmmetra af jarðefnum, sem að mestu leyti er sprengd klöpp.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum segir að 10 megawatta orkuver eða stærri, skuli ávallt vera háð mati á umhverfisáhrifum. Þá er efnistaka matsskyld ef efnismagn er 150.000 rúmmetrar eða meira. Uppsett afl Einbúavirkjunar er því rétt undir viðmiði um matsskyldu en efnistaka vegna framkvæmdarinnar matsskyld. Með tillögu sinni að matsáætlun telur félagið Litluvellir ehf. æskilegt að framkvæmdin verði háð mati á umhverfisáhrifum og að almenningi og öðrum gefist tækifæri til að kynna sér framkvæmdina.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV