Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Einar K: Alþingis að ákveða um framhaldið

16.03.2015 - 17:14
Mynd: RÚV / RÚV
Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis steig í pontu í umræðum um ESB málið í dag og sagði að það væri í höndum Alþingis að ákveða um framhald ESB málsins, kjósi það svo.

Einar fjallaði um gildi þingsályktana og sagði að hvað gildi þingsályktunarinnar frá 2009 [ um að hefja skyldi aðildarviðræður ] áhrærði væri ljóst að vikið hefur verið frá henni í þremur tilvikum.

„Í ársbyrjun 2013 með því að gert var hlé á viðræðununum, um sumarið 2013 voru viðræðurnar stöðvaðar formlega og samninganefndirnar leystar frá störfum um haustið,“ segði Einar. „Loks hefur með bréfi utanríkisráðherra nú sú afstaða ríkisstjórnarinnar verið áréttuð að aðildarviðræður við ESB verði ekki teknar upp að nýju og ekki beri lengur að líta á Ísland sem umsóknarríki.“ 

Einar sagði að það væri jafnframt ljóst að ályktun Alþingis hefði ekki verið breytt eða hún afturkölluð. „Meðal annars vegna pólitísks mikilvægis ESB málsins, taldi ég árið 2013 nauðsynlegt að lögð væri fram þingsályktunartillaga um slit ef ætlunin væri að fara þá leið að hætta við aðildarumsóknina. Um þetta voru ekki allir sammála mér, en það var hins vegar gert eins og allir vita. Það er reginmunur á þeirri tillögu og því bréfi sem hæstvirtur utanríkisráðherra hefur sent forsvarsmönnum ESB,“ sagði forseti Alþingis.

Einar segir að munurinn á bréfinu og tillögunni sé augljós, á það hafa aðrir bent auk hans sjálfs. Vísað hafi verið til bréfsins sem diplómatískrar aðferðar til að láta aðildarviðræðurnar enda án þess að umsóknin sé dregin formlega til baka. Einar vísar einnig til orða Ragnhildar Helgadóttur lagaprófessors í fréttum RÚV um að í bréfinu felist pólitísk yfirlýsing sem hafi klárlega mikið gildi en breyti ekki hinni lagalegu stöðu frá því sem komið var.

„Í mínum huga er meginatriðið það að með þingsályktuninni árið 2009 fór af stað málið sem er hér til umfjöllunar. Það studdist við pólitískan vilja þáverandi stjórnarmeirihluta,“ segir Einar. „Sá ráðherra sem nú fer með utanríkisráðherra hefur á grundvelli þess stjórnarmeirihluta sem nú er gripið til þeirra ráðstöfunnar að tilkynna ESB um vilja þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr til málsins. Þrátt fyrir þetta er ljóst að ályktun Alþingis hefur ekki verið breytt né hún afturkölluð. Það er síðan í valdi Alþingis að ákveða um framhaldið, ef það svo kýs.“