Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einar Árni hættir með Þór í vor

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Einar Árni hættir með Þór í vor

17.02.2018 - 15:00
Einar Árni Jóhannsson mun láta af störfum sem þjálfari Þórs í Þorlákshöfn í Dominos-deild karla í körfubolta að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Baldur Þór Ragnarsson mun taka við sem aðalþjálfari liðsins en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Einars undanfarin þrjú ár og hefur gert þriggja ára samning við Þór.

Einar Árni átti möguleika á því að halda áfram sem þjálfari Þórs en ákvað að gefa Þór afsvar. „Það hefur verið frábært að starfa í Þorlákshöfn og það var mjög erfið ákvörðun að afþakka framlengingu á 3ja ára samningnum sem rennur út núna í vor. Ég tilkynnti forráðamönnum Þórs mína ákvörðun um síðustu mánaðarmót til að félagið gæti farið að huga að framhaldi,“ segir Einar í tilkynningu sem Þór sendir frá sér í dag.

Einar Árni er búsettur í Reykjanesbæ og nefnir hann það sem eina af helstu ástæðum þess að hann vilji nú breyta til enda fer dágóður tími í akstur á milli Njarðvíkur og Þorlákshafnar.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Baldur Þór starfar sem aðalþjálfari í meistaraflokki. Auk þess að vera aðstoðarþjálfari hjá Þór þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari U20 ára karlalandsliðsins s.l. þrjú ár, var auk þess aðstoðarþjálfari í U16 ára drengjalandsliðinu s.l. sumar og starfar einnig sem styrktarþjálfari A landsliðs karla. Baldur er auk þess yfirþjálfari yngri flokka í Þorlákshöfn og mun halda því starfi áfram.