Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ein og hálf kind á hvern Íslending

03.07.2013 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega 476 þúsund fjár var skráð á Íslandi á síðasta ári samkvæmt tölum Matvælastofnunar. Þetta er um ein og hálf kind á hvern Íslending. Langmest af sauðfé er skráð á Norðurlandi vestra eða rúmlega 106 þúsund. Fæst er sauðféð hins vegar á Reykjanessvæðinu, tæplega 5.000.

Matvælastofnun hefur gefið út opinberar tölur um fjölda búfjár og fóðurframleiðslu í landbúnaði fyrir árið 2012, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar. Þær byggja á skráningu búfjáreftirlitsmanna að vori og bænda að hausti. 

Þessar tölur leiða í ljós að rúmlega 77 þúsund hross eru skráð á Íslandi, þau eru flest á Suðurlandi eða um 28 þúsund. 71 þúsund nautgripir voru á Íslandi á síðasta ári, langflestir á Suðurlandi eða um 27 þúsund.

Um 3.600 svín voru á Íslandi samkvæmt tölum Matvælastofnunar, flest á Suðurlandi eða rúm þúsund en aðeins eru 857 geitur á skrá hjá MAST, flestar á Vesturlandi eða 310.

Matvælastofnun birtir einnig tölur yfir kornuppskeru. Uppskeran í fyrra nam rúmum 13 þúsund tonnum sem er nokkuð minna en árið 2011, sem var algjört metár. Þá nam uppskeran tæpum 19 þúsund tonnum.

[email protected]