Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ein mikilvægasta skráin úr safni Kólumbusar

Mynd með færslu
Matthew Driscoll og Kivilcim Yavuz skoða hina merku bók. Mynd: Árnastofnun - RÚV

Ein mikilvægasta skráin úr safni Kólumbusar

11.04.2019 - 16:14

Höfundar

„Ástæðan fyrir því að enginn vissi hvað handritið hafði að geyma er sú að það vantar upphafið, hugsanlega fyrstu 200 síðurnar. Þannig gátu menn séð að þetta væri bókalisti en engar upplýsingar var að finna í handritinu um hver tók listann saman eða til hvers,“ segir Matthew James Driscoll, prófessor hjá Árnastofnun í Kaupmannahöfn um handritið sem nýverið fannst í safni Árna Magnússonar og er talið vera frá Hernandó Kólumbus, syni Kristófers Kólumbusar.

Handritið er meira en 2.000 síður og er með yfirliti og útdráttum úr bókum bókasafns Hernandos. Þessi óskilgetni sonur Kristófers Kólumbusar ætlaði að búa til mesta bókasafn heims og komst yfir ótrúlegt magn af bókum á ferðalögum sínum um heiminn.

Þáttur Árnastofnunar í þessum fundi er býsna mikill eins og Driscoll útskýrir. Til eru 22 handrit í safni Árna sem eru af spænskum uppruna, þetta eru handrit á spænsku eða latínu og voru skrifuð á Spáni eða af Spánverjum búsettum í Róm. Driscoll segir að af og til hafi verið fjallað um þessi handrti en þau hafi ekki hlotið sömu athygli og þau norrænu. „Á þessu hefur þó nýlega orðið breyting, því að á undanförnum árum hafa ýmsir fræðimenn lagt leið sína í Árnasafn og notað þessi handrit í rannsóknum sínum og ritum,“ segir hann í skriflegu svari við nokkrum fyrirspurnum fréttastofu.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Hernando Kólumbus og Árni Magnússon

Í þessum hópi fræðimanna er Guy Lazure frá Windsor-háskólanum í Kanada. Hann skoðaði flest ef ekki öll spænsku handritin og gerði ýmsar uppgötvanir. „Meðal annars sýndist honum að þessi risastóra bókaskrá gæti verið týnda skráin úr Biblioteca Columbina, bókasafni Hernandos Kólumbusar í Sevilla.“

Driscoll segir að Lazure hafi nefnt þennan möguleika en hvorugur hafi haft tækifæri til að vinna meira í því. „Seinna meir fórum við hér á Árnasafni að skoða þessi spænsku handrit, einkum og sér í lagi til þess að reyna að komast að því hvernig þau væru komin í safnið.“ Þetta varð til þess að Driscoll hafði aftur samband við Guy og setti sig síðan í samband við Mark McDonald hjá Metropolitan-safninu í New York sem hefur skrifað nokkrar bækur um Kólumbus yngri. „Honum sýndist líka að hér gæti verið týnda skráin hans Kólumbusar.“ 

 

Og eftir það fór boltinn að rúlla. McDonald kom á sambandi við Edward Wilson-Lee í Cambridge og José María Peréz Fernández, kollega hans í Granada en þeir tveir hafa rannsakað bókasafn Kólumbusar í mörg ár. „Þeir komu í heimsókn til að skoða handritið í lok mars og gátu staðfest að þetta væri í rauninni El Líbro de los Epítomes, mikilvægasta skrá úr bókasafni Kolumbusar, sem hingað til hefur verið talin glötuð.“    

Mynd með færslu
 Mynd: Árnastofnun - RÚV
Bókaskrá Hernando Kólumbusar.

Driscoll segir að flest spænsku handritin í safni Árna Magnússonar hafi verið í eigu Corneliusar Lerche sem var danskur aðalsmaður og sendifulltrúi á Spáni. Hann eignaðist mikið safn spænskra bóka og handrita sem eftir andlát hans voru að mestu leyti seld á uppboði. Þá fékk Árni einhver handrit úr búi annars dansks aðalmanns, Jens Rosenkrantz. „Fleiri handrit eru safnhandrit með blandað efni, bréf, minnisgreinar, afskriftir og teikningar; þar gæti vel leynst eitthvað merkilegt sem enginn hefur fyrr tekið eftir, en annars er nú búið að fara nokkuð vel í gegnum handritin.“

Fundurinn á handriti Kólumbusar hefur vakið mikla athygli, einna helst á Spáni og í Suður-Ameríku. „Við höfum ekki áður upplifað annað eins, ekki á þeim 25 árum sem ég er búinn að vera hér í Höfn.“ Driscoll segir að þeir vilji endilega gefa Kólumbusar-handritið út á stafrænu formi en það sé þó meira en að segja það því þetta sé bók upp á nærri 2.000 síður. „Sem betur fer er skriftin skýr og latínan ekki sérlega erfið, en ætli við myndum ekki vilja þýða textann á ensku líka.“   

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Handrit sonar Kólumbusar finnst í safni Árna