Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ein lést í öflugum jarðskjálfta á Indónesíu

15.07.2019 - 01:53
epa07716608 Residents gather at a temporary shelter following a 7.3 quake in Ternate, North Maluku, Indonesia, 14 July 2019. According to Indonesian National Board for Disaster Management (BNPB), a strong earthquake hit Indonesia's North Maluku province damaging some houses and forced residents to flee their home.  EPA-EFE/ZULKIFLI AHMAD
Nokkrir íbúar Ternate-borgar í neyðarskýli skömmu eftir að stóri skjálftinn reið yfir Mynd: EPA-EFE - EPA
Sterkur og grunnur jarðskjálfti, 7,3 að stærð, skók austanverða Indónesíu á tíunda tímanum í kvöld að íslenskum tíma. Ein kona lét lífið í skjálftanum, sem olli töluverðu tjóni á mannvirkjum og vakti mikla skelfingu meðal borgaranna.

Upptök skjálftans voru á 10 kílómetra dýpi, tæpa 170 kílómetra frá borginni Ternate, héraðshöfuðborg Norður- Maluku héraðs. Yfirvöld lýstu því yfir skömmu eftir að skjálftinn varð, að engin hætta væri á flóðbylgju. Engu að síður flykktist fólk frá ströndinni og hærra upp í land, þúsundum saman, til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Skjálftinn fannst víða um hið víðfeðma eyríki sem Indónesía er, þar á meðal á Sulawesi og Papúa, að sögn Rahmats Triyonos, forstjóra jarðskjálfta- og flóðbylgjustofnunar Indónesíu. 48 eftirskjálftar mældust fyrstu klukkustundirnar eftir að sá stóri reið yfir.

Ikhsan Subur er starfsmaður almannavarna í Labuha, bænum sem stendur næst upptökum skjálftans. Hann segir í samtali við al Jazeera að nokkur hundruð bæjarbúar hafi leitað skjóls í opinberum byggingum og moskum af ótta við eftirskjálfta. Sagði hann töluverðar skemmdir hafa orðið á byggingum í bænum og nágrenni hans.

Yfirvöld hafa sent tjónaskoðunarmenn á vettvang til að kanna ástandið og meta tjónið, en Norður-Maluku er á meðal fámennustu og strjálbýlustu héraða Indónesíu, með einungis um eina milljón íbúa. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV