Ein dýrategund í botni Kolgrafafjarðar

22.03.2014 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðallega ein tegund, burstaormur sem þolir vel mengun, lifir nú í botni Kolgrafafjarðar. Allt annað botnlíf þar drapst eftir síldardauðann.

Rúmlega 50 þúsund tonn af síld drápust í Kolgrafafirði veturinn 2012 til 2013. Heilmikið er vitað um lífríki fjarðarins fyrir þann tíma því árið 1999 fór fram úttekt á því vegna mats á umhverfisáhrifum brúarinnar sem nú þverar fjörðinn.

Rannsókn á áhrifum síldardauðans á botn og fjöru fjarðarins hófst í fyrra. Hún er samstarfsverkefni Náttúrustofu Vesturlands, Háskólasetursins í Stykkishólmi og Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands. Fjölskrúðugt lífríki var í firðinum áður en síldin drapst.  „Síldardauðinn hann drap allt botndýralíf,“ segir Valtýr Sigurðsson líffræðingur. „Það sem gerist er að það leggst yfir þarna teppi af dauðri síld og þegar hún fer að rotna þá í rauninni lokast hún inni í hjúp af súrefnissnauðum sjó. Rotnunin tekur til sín allt súrefni.“

Ekki er vitað til þess að langvarandi súrefnisþurrðar hafi áður gætt í íslenskum firði og engar rannsóknir hafa verið gerðar við sambærilegar aðstæður og þær sem sköpuðust í firðinum síðasta vetur. 

Fyrir síldardauðann voru sniglar, krossfiskar, marflær, krabbar, skeljar og margar fleiri tegundir í firðinum. Núna er þar aðallega ein tegund, burstaormur sem nefnist capitella capitata. Í rannsókninni sem gerð var 1999 fannst einn slíkur ormur í firðinum. Núna eru þar um 35 þúsund ormar á fermetra og eru þeir stærri en áður hefur sést.  

Ormurinn þarf ekki mikið súrefni til að lifa af. Hann plægir botninn, étur lífrænan úrgang og drullu og getur afeitrað efni eins og ammoníak.  Valtýr svarar því játandi að ormurinn sé leið náttúrunnar til að hreinsa í firðinum. „Já og þetta er náttúrlega lífræn mengun þannig þetta er ekkert nýtt þetta er eitthvað sem náttúran er gerð til þess að takast á við. Þannig að við búumst við því að náttúran höndli þetta bara á nokkrum árum.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi