Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eignum Norðurþings ekki haldið við

09.11.2018 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Þór Briem - RÚV
Íbúar á Raufarhöfn eru þreyttir á langvarandi viðhaldsleysi á eignum sveitarfélagsins, sem eru taldar lýti á þorpinu. Formaður hverfisráðs vill að sveitarfélagið taki sig á og fylgi fordæmi heimamanna sem hafi gert skurk í viðhaldi. 

Hverfisráð Raufarhafnar fjallaði nýverið um nauðsynlegar viðgerðir á mannvirkjum í eigu Norðurþings. Listinn er langur og inniheldur til dæmis lagfæringar á grunnskóla, íþróttahúsi, ráðhúsi og tjaldsvæði, auk mikilla framkvæmda við sundlaug og félagsheimili. 

„Lýti á sveitarfélaginu“

Gísli Þór Briem, formaður hverfisráðs, segir að eignum sveitarfélagsins í þorpinu hafi ekki verið sinnt nægilega vel. Verst sé að horfa á SR-lóðina svokölluðu, leifar af byggingum frá síldarvinnslu og loðnubræðslu. Stórir og illa farnir lýsistankar við Aðalbraut blasa við öllum sem fara um þorpið. „Þetta er náttúrulega bara ægilegt lýti á sveitarfélaginu að hafa þetta svona og búið að vera í mörg ár,“ segir Gísli. 

Raufarhöfn hefur á síðustu árum átt aðild að átaksverkefnum og íbúar verið hvattir til að gera snyrtilegt. „Það hefur orðið mjög mikið til bóta hvað einstaklingar eru búnir að taka til hjá sér í húsum og görðum, mála og laga til. Það er kannski kominn tími til að sveitarfélagið fari líka aðeins að gera eitthvað, og ætti náttúrulega helst að fara á undan með góðu fordæmi,“ segir Gísli. 

Snýst allt um að forgangsraða

Silja Jóhannesdóttir, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings, segir þörf á að gera betur, en bendir á að götur í þorpinu hafi verið malbikaðar fyrir skemmstu. Nú sé unnið að framkvæmdaáætlun og því sé gott að fá þennan lista frá hverfisráði. „Við munum reyna að meta hver eru algjör forgangsverkefni og hvað má kannski bíða. Líka af því að á næsta ári erum við með stórar framkvæmdir sem er búið að ákveða, það er eins og slökkvistöð og byggja íbúðakjarna fyrir fatlaða og fleira. Þannig að það er ekkert hlaupið að því að verði rosalega mikið til annarra framkvæmda,“ segir Silja. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Þór Briem - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Þór Briem - RÚV
jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV