Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eignarhald Hörpuhótels í gegnum röð félaga

19.05.2016 - 19:15
Byggingarsvæði fyrir Hörpuna við Reykjavíkurhöfn.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Engar opinberar upplýsingar fást um raunverulegt eignarhald lúxushótels sem rísa á við tónlistarhúsið Hörpu í Reykjavík. Röð eignarhaldsfélaga að baki hótelinu endar í Delaware í Bandaríkjunum.

Á morgun á að kynna útlit nýs lúxushótels sem nú er byrjað að grafa fyrir við Hörpu. Í Morgunblaðinu í dag er því slegið upp að Bill Gates, stofnandi Microsoft, verði meðal fjárfesta. Í fjölmiðlum hefur áður komið fram að Eggert Dagbjartsson fjárfestir og bandaríska fyrirtækið Carpenter & Company standi að hótelbyggingunni. Þegar eignarhaldið er skoðað nánar blasir við flóknari mynd.

epa05264169 Co-Chair of the Bill and Melinda Gates Foundation and Microsoft Founder Bill Gates participates in the panel discussion on 'A New Vision for Financing Development' at the World Bank headquarters in Washington, DC, USA, 17 April 2016.
 Mynd: EPA

Að framkvæmdinni stendur íslenskt félag, Cambridge Plaza Hotel Company ehf. Stofnandi þess var annað íslenskt félag, Cambridge Plaza Port Company ehf. Það var stofnað af enn öðru íslensku félagi, Cambridge Plaza Venture Company ehf. Öll voru félögin stofnuð samdægurs í ágúst í fyrra og í stjórnum þeirra sitja íslenskir lögmenn. 

Að baki félögunum stendur svo enn annað félag, skráð í Hollandi, Cambridge Netherlands Investors B.V, sem samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskrá hefur eina evru í hlutafé. Í stjórn þess sitja ekki raunverulegar persónur, heldur félagið Orangefield Netherlands B.V. alþjóðlegt fyrirtæki sem þjónustar önnur fyrirtæki. Næst verður eignarhald hótelsins við Hörpu rakið yfir Atlantshafið, til félagsins Cambridge Iceland Investors. Það er með póstfang í Massachusetts, á sama stað og fjárfestirinn Carpenter & Company, en er hins vegar skráð nokkuð sunnar, í Delaware-ríki. Þar endar eigendaslóðin.

Tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík, Harpa.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Delaware er þekkt lágskattasvæði sem hefur verið gagnrýnt fyrir þá leynd sem þar ríkir um eignarhald fyrirtækja. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá í Delaware þurfa félög af þessu tagi hvorki að skila ársreikningum né upplýsingum um eigendur, aðeins stofnskrá. Þar kemur lítið annað fram en nafn fyrirtækisins og hver fer með umboð fyrir það gagnvart stjórnvöldum í Delaware. Fréttastofa fékk þær upplýsingar hjá umboðsfyrirtækinu að það gæfi engar upplýsingar um viðskiptavini sína. Engar skjalfestar upplýsingar eru því fáanlegar um raunverulegt eignarhald hótelsins við Hörpu.

Í yfirlýsingu frá Haraldi Flosa Tryggvasyni, lögmanni fjárfestanna, segir að raunverulegir eigendur Delaware-félagsins séu Richard Friedman, forstjóri Carpenters & Company, sem sé ráðandi eigandi, þrír nafngreindir starfsmenn Carpenters & Company og fyrrnefndur Eggert Dagbjartsson, í gegnum enn önnur félög í Massachusetts og Delaware.

Í yfirlýsingu frá Friedman segir að farið hafi verið í gegnum félag í Hollandi vegna tvísköttunarsamninga. Margir Bandaríkjamenn velji að hafa viðskipti í gegnum Delaware vegna þróaðrar og alþjóðlega þekktrar fyrirtækjalöggjafar sem þar gildi. Engin skattaskjólsfélög komi að eignarhaldinu. Skattur af rekstrarhagnaði hótelsins verði greiddur að fullu á Íslandi.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV