Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eiginkonan með arfinn í aflandsfélagi

16.03.2016 - 12:32
Mynd með færslu
Anna Sigurlaug Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, á leið á kjörstað 2013 Mynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson - Facebook
Wintris Inc., félag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu forsætisráðherra, er skráð á Bresku-Jómfrúreyjum og bankareikningur þess er í fjárstýringu hjá útibúi Credit Suisse á Bretlandi. Félagið átti tvær kröfur í þrotabú föllnu bankanna.

Þetta staðfestir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem hefur verið falið að veita fjölmiðlum upplýsingar um fjármál Önnu Sigurlaugar. Hún vakti sjálf athygli á málinu með færslu á Facebook í gærkvöld. Þar sagðist hún eiga erlent félag sem hún notaði til að halda utan um fjölskylduarf sinn. Anna Sigurlaug er dóttir Páls Samúelssonar sem átti Toyota-umboðið.  Hún seldi Magnúsi Kristinssyni útgerðarmanni það fyrir 5,3 milljarða króna árið 2005.

Jóhannes segir í samtali við fréttastofu að Landsbankinn hafi stofnað félagið árið 2007 á Bresku-Jómfrúreyjum. Bankinn hafi síðan útvegað Önnu Sigurlaugu félagið í byrjun árs 2008 þegar hún fékk sinn hlut, eftir að P. Samúelsson var selt. Jóhannes segir að reikningur Önnu sé í fjárstýringu hjá útibúi svissneska bankans Credit Suisse á Bretlandi. Félagið hafi aldrei fjárfest á Íslandi eftir að Sigmundur Davíð byrjaði í stjórnmálum, en Anna Sigurlaug á sjálf 10% hlut í skartgripafyrirækinu Divine Love ehf.

Jóhannes staðfestir ennfremur að aflandsfélagið Wintris hafi átt tvær kröfur í slitabú föllnu bankanna. Önnur þeirra var í þrotabú Landsbankans og var upp á 174 milljónir króna. Hin var í þrotabú Kaupþings. Jóhannes vissi ekki hversu há sú krafa var. Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum um hversu mikið fékkst greitt upp í kröfurnar.

Ekki er minnst á aflandsfélagið í hagsmunaskráningu Sigmundar Davíðs á vef Alþingis. Samkvæmt reglum um hagsmunaskráningu þingmanna ber honum ekki skylda til að upplýsa um eignir maka.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV