Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eigi ekki að þurfa að þola návist sexmenninga

04.12.2018 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þingmenn úr fjórum flokkum fordæmdu á þingi orðfæri sex þingmanna á Klaustri, sem upp komst með upptöku af samtali þeirra. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að fólk sem hefði þurft að þola illmælgi þingmannanna um sig ætti ekki að þurfa að þola nærveru þeirra. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði að skömmin væri hjá þingmönnunum sex en ekki þeim sem þeir hefðu talað um.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, tók fyrstur til máls um ummæli þingmannanna sex á Klaustri. Hann sagðist hafa fylgst af aðdáun með mikið fötluðu fólki sem berðist á hverjum degi við þröskulda sem lagðir væru fyrir það. „En að geta hugsað það sem þarna fór fram, setja það í orð og setið undir því, á ekki að líðast,“ sagði Guðmundur Ingi. „Við verðum að átta okkur líka á því að þetta segir allt, allt um þá sem voru þarna og ekki neitt um þá sem fjallað var um. Við verðum líka að koma í veg fyrir grófa hatursumræðu og smán gagnvart konum og minnihlutahópum og við verðum að passa upp á það að skömmin sé hjá þeim sem þarna töluðu en sé aldrei komið yfir á aðra,“ sagði Guðmundur Ingi í lok ræðu sinnar og heyrðist þá fagnað.

Geta þau sinnt starfi sínu?

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort þingmennirnir sex ættu að segja sig frá þingmennsku. „Ég vil frekar spyrja: Geta þau sinnt starfi sínu?“ Þeim bæri að vanda til vinnu við lagasetningu, hlusta á gesti og eiga í samstarfi við aðra þingmenn. „Hópur þingmanna, þó aðallega kvenna, mátti sæta grófu níði, aðdróttunum, röngum sakargiftum og vanvirðandi hegðun af hálfu þessara einstaklinga. Með beinum orðum þeirra eða aðgerðaleysi vegna nærveru þeirra.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Helga Vala sagði að hafa þyrfti í huga að aðeins hefði verið fjallað um þau ummæli þingmannanna sem snerust að öðrum opinberum persónum. Ekki væri vitað hvernig þau hefðu talað um annað fólk, svo sem starfsfólk þingsins. Hún sagði marga starfsmenn þingsins hafa spurt þingmenn og sjálft sig hvernig hefði verið talað um sig. Hún sagði að fólk sem hefði þurft að þola það sem þingmennirnir sögðu ætti „ekki að þurfa að þola návist þeirra“.

Slettist á sjálfsmyndina

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að Íslendingar hefðu talið sig í fararbroddi í jafnréttismálum. „Það hefur slest á þá sjálfsmynd síðustu daga.“ Hún sagði stöðu kvenna hafa breyst til hins verra vegna breytinga á pólitíska sviðinu víða um heim, gengið væri á rétt kvenna og þær niðurlægðar. „Við þurfum öll að taka á því saman svo að sú ómenning sem birtist hér, á síðustu dögum, hafi ekki enn meiri skaða í för með sér.

Stolt af forseta þingsins

„Það er einkennilegt andrúmsloftið á hinu háa Alþingi í dag,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. „Alþingismenn mega líka hafa tilfinningar án þess að það sé verið að rægja þá eða rakka eða gera lítið úr.“

Inga sagðist vera stolt af því hvernig forseti Alþingis hefði tekið á málinu við upphaf þingfundar í gær. „Mér þótti það til fyrirmyndar og ég var stolt forseta mínum í gær,“ sagði Inga og fagnaði því að siðanefnd hefði verið virkjuð. Það sýndi vilja til að breyta umgjörðinni í þinginu og breyta siðferðinu sem ríkt hefði í áratugi og gert mönnum kleift að axla ekki ábyrgð.

„Kjósendur vilja heiðarlegt fólk inn á Alþingi Íslendinga. Þeir vilja fyrst og fremst traust.“ Inga sagði að þó svo að Flokkur fólksins sigldi nú aðeins hálfur mætti treysta honum. „Við Guðmundur Ingi Kristinsson erum bæði öryrkjar. Við berjumst fyrir hagsmunum minnihlutahópa.“

Mynd með færslu
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.

Dæmigerður fyrirsláttur

„Formaður Miðflokksins vill meina að sú stæka kvenfyrirlitning, fötlunarfordómar og fordómar gegn samkynhneigðum sem ullu upp úr honum og nokkrum þingmönnum á bar á dögunum sé alsiða á Alþingi og því eigi alþingismenn, sér í lagi karlmenn á þingi, að líta í eigin barm. Þetta sé spurning um menningu á þinginu,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Mér finnst þetta gróf aðför þingmannsins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að kollegum sínum hér á þingi. Ég trúi því ekk að hann segi satt. Ég vil koma hér karlkyns kollegum mínum til varnar því hér er um týpískan fyrirslátt að ræða sem á ekki við rök að styðjast.“

Hún sagði að ef eitthvað þyrfti að laga á þingi væru það viðbrögð formanns Miðflokksins. „Hættum að nota þessar afsakanir.“

Stjórnlaust egó og eiginhagsmunagæsla

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði að það hefði verið viss áskorun að vinna með flokki sem hún væri jafn ósammála og Miðflokknum, ekki aðeins um stefnumál heldur um grunnhugmyndafræði og viðhorf. Hún hefði þó alltaf borið virðingu fyrir því að þingmenn Miðflokksins væru fulltrúar þeirra sem kusu þá á þing.

Halldóra sagði vilja til samstarfs meðal þingmanna hafa leitt til nándar meðal þingmanna, sem gæti gert stöðuna erfiðari en annars. Hún vísaði til kröfu almennings um afsögn þingmannanna. „Traustið er rofið. Ef þingmönnum er annt um lýðræðið og kjósendur sína þá íhuga þeir stöðu sína af alvöru og spyrja sig hvort það að sitja sem fastast sé skaðlegt fyrir stjórnmálaflokkinn og getu hans til að vinna að málefnum sínum, hvort það sé skaðlegt fyrir stjórmálin og traust á þinginu, hvort það sé skaðlegt fyrir lýðræðið. Því ef svo er þá er það merki um stjórnlaust egó og eiginhagsmunagæslu að sitja áfram á þingi eftir að viðkomandi þingmaður hefur misst getuna til að vinna af heilindum að málefnum og stefnu síns flokks.“

Hún sagði óheiðarleika og baktjaldamakk þátt menningarinnar á þingi, þetta væri hluti vandamálsins. Nú væri tímabært að spyrja hvort uppræta ætti þessa menningu.

Lágkúran heldur áfram

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði þingstörfin hefðu gengið ágætlega í haust og flest stefnt til betri vegar eftir pólitískar sviptingar síðustu ára. Alþingi hefði svo haldið rakarastofuráðstefnu fyrst þjóðþinga og rætt sérstaklega um traust til Alþingis.

Bjarkey sagði að Alþingi væri ekki aðeins löggjafarsamkunda heldur líka vinnustaður. „Hér eyðum við stærstum hluta vinnunnar saman, þvert á flokka, við borðum saman, við störfum saman, við tölum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að okkur líði vel á vinnustaðnum og að við upplifum öryggi. Því miður er það ekki svo á Alþingi síðustu daga.“

Bjarkey sagði að lágkúran hefði haldið áfram í sjónvarpsviðtölum í gær. Þar hefði Sigmundur Davíð sagt að orðræðan sem viðhöfð var af hans hálfu og nokkurra annarra þingmanna væri hefðbundin meðal þingmanna. „Virðulegi forseti, það er óásættanlegt að sitja hér undir slíkum dylgjum,“ sagði Bjarkey og lauk máli sínu með orðunum: „Ykkar sexmenninganna er skömmin, þið eigið að axla ábyrgð.