Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eigandi Húh!-sins til í viðræður við Hugleik

23.03.2018 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: Hugleikur Dagsson - Facebook
Hugleikur Dagsson, einn þekktasti skopmyndateiknari landsins, þarf að hætta framleiðslu á bol sem hann teiknaði eftir velgengni Íslands á EM í Frakklandi. Ástæðan er sú að á bolnum er að finna orðið „Hú!“. Íþróttafræðingurinn Gunnar Þór Andrésson á einkaréttinn á að prenta orðið „Húh!“ á klæðnað og áfengi og Einkaleyfastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að orðin tvö – „Húh!“ „Hú!“ – séu of lík. Gunnar segist ekkert vilja banna. Hann sé til í viðræður við Hugleik.

Hugleikur skrifar um málið á Facebook-síðu sína og segist ekki skilja hvernig einhver geti átt upphrópun á borð við Hú! Hvað þá að Húh! og Hú! sé sama orðið.

Sér tækifæri í HM – í viðræðum við prjónastofu

Gunnar Þór Andrésson fékk einkaleyfi á notkun Húh!-sins á fatnað og drykkjarvörur 7. júlí 2016, rétt eftir að Ísland hætti keppni á Evrópumótinu í fótbolta og víkingaklappið varð heimsfrægt. Hann á einkaleyfið næstu tíu árin. Hann segist í samtali við fréttastofu sjá sóknarfæri í heimsmeistaramótinu í sumar og sé kominn í viðræður við prjónastofu um framleiðslu á fatnaði með Húh!-inu á.

Gunnar segist hafa haft samband við Hugleik fyrir jól og bent honum á að hann ætti einkaleyfið á notkuninni. Hann segist hafa boðið Hugleiki tvo valkosti: annað hvort að hætta að framleiða og selja bolina eða að þeir kæmust að samkomulagi um að deila hagnaðinum eða einhverju leyti. Hann segist þó ekki hafa verið að sækjast eftir peningum, bara að einkaleyfi hans yrði virt.

„Ég var ekkert að banna honum að selja bolina, ég vildi bara að við kæmumst að samkomulagi ef hann hefði einhverjar hugmyndir um fasta tölu eða prósentu. Þau svöruðu mér ekkert um það hvað þau væru að hugsa,“ segir Gunnar, sem ítrekar að hann vilji ekki banna neinum neitt. „Ég er til í samtal með opnum huga,“ segir hann.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV