Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eiga söfn að vera átakavettvangur?

Mynd: wikicommons / wikicommons

Eiga söfn að vera átakavettvangur?

07.02.2018 - 11:58

Höfundar

„Er ekki mikilvægt að hatursorðræðunni sé ekki sópað undir teppið, heldur sé hún sett fram með orðræðu sem einkennist af því að efla samhyggð,“ segir Arndís Bergsdóttir safnafræðingur.

„Söfn hafa ákveðið kennivald og þau eru almannarými. Þau eru því þýðingarmiklar stofnanir þegar kemur að því að breyta áherslum, hugmyndun og viðhorfum um fjölþjóðlegan hreyfanleika, og setja það í sögulegt samhengi,“ segir Arndís Bergsdóttir, safnafræðingur, í viðtali við Víðsjá. Hún stýrði á dögunum málþingi um söfn og fólksflutninga í Þjóðminjasafninu. 

Fjórtán þúsund björgunarvesti

Málefni tengd fólksflutningum og þau félagslegu-, menningarlegu og hagrænu áhrif sem flutningar fólks hafa á samfélög okkar hafa verið í brennidepli undanfarið. Kínverski listamaðurinn Ai Wei wie í er hópi þeirra fjölmörgu listamanna sem með verkum sínum hefur reynt að beina kastljósinu að vandanum og ávarpa hann. Fyrir tveimur árum síðan þakti hann til að mynda grískar súlur konserthallarinnar í Berlín með 14.000 björgunarvestum flóttamanna. Björgunarvestin, sem voru öll notuð,  flutti hann til Berlínar frá eyjunni Lesbos en það var einmitt þar, á eyjunni Lesbos, sem hann tók ákvörðun um að kynnast fólki á flótta og gera kvikmynd um upplifun sína.

Að læra að búa saman

Heimildamyndin Human Flow var frumsýnd síðastliðinn október og fjallar um eitt mest aðkallandi málefni okkar tíma, fólksflutninga, en nú búa um 65 milljónir manna fjarri heimkynnum sínum eftir að hafa verið hrakin þaðan með valdi, líkt og fram kemur í myndinni. Aðspurður um það afhverju hann hafi ráðist í þetta mikla verk segir Aiweiwei einfaldlega að það hafi verið erfitt að gera það ekki. „Við þurfum að horfast í augu við það að eitt mest aðkallandi verkefni okkar í dag er að finna leiðir til að geta búið saman. Heimurinn verður stöðugt minni og fólk af mismundandi trúarbrögðum úr ólíkum menningarhlutum verða að læra að búa saman,“ segir einn viðmælandi listamannsins sem ferðaðist um 23 lönd yfir tveggja ára tímabil til að safna vitnisburðum fólks sem hefur verið hrakið frá heimkynnum sínum.

Söfnin vekja athygli á vandanum

Það eru ekki bara listamenn sem hafa reynt að vekja athygli á vandanum, söfnin sjálf eru líka farin að gera það, líkt og Arndís Bergsdóttir safnafræðingur bendir á. Þann 19.janúar síðastliðinn fór fram málþing á vegum Þjóðminjasafnsins um áhrif fólksflutninga á starfsemi safna. Fyrirlesarar á málþinginu voru fræðimenn úr safnaheiminum, þau  Rhiannon Mason, Christopher Whitehead og Susannah Eckersley, en þau eru ritstjórar bókarinnar Museums, Migration and Identity in Europe: Peoples, Places and Identities.

Vettvangur fordómafullra sjónarmiða

Arndís var fundarstjóri málþingsins. Hún segir líflegar umræður hafa sprottið upp eftir formleg erindi þar sem hinum ýmsu spurningum var velt upp. Meðal annars þessari;

Ef verið er að fjalla um fólksflutninga, flóttafólk og innflytjendur, eiga söfn þá líka að fjalla um andstæð sjónarmið, það er að segja, ef við erum að fjalla um fólksflutninga með það fyrir augum að breyta orðræðunni eða auka skilning og ef til vill minnka fordóma, eiga fordómafull sjónarmið þá líka rétt á að heyrast inni á söfnum?

„Þetta er ofsalega áhugaverð spurning,“ segir Arndís. „Oft langar okkur að fara á safn til að fá einmitt frið fyrir átökum mismunandi sjónarmiða. Horfa á krúttulega vasa frá því fyrir 200 árum, þjóðbúninga eða eitthvað slíkt og losna við það sem dynur á okkur alla daga. En í krafti þess kennivalds sem söfn hafa eru þau mikilvægur vettvangur til að breyta orðræðu og mögulega leggja grunn að viðhorfsbreytingum. Ef það er markmiðið að setja upp sýningar þannig að það skapist meiri skilningur á þá líka að opna dyrnar fyrir sjónarmiðum þeirra sem standa gegn slíku? Þá eru söfn orðin átakavettvangur, en eiga þau ekki einmitt að vera það? Er ekki mikilvægt að hatursorðræðunni sé ekki sópað undir teppið, heldur sé hún sett fram með orðræðu sem einkennist af því að efla samhyggð?“

Fjallað var um heimildarmyndina Human Flow og rætt við Arndísi Bergsdóttur í Víðsjá. Hægt er að hlusta í spilaranum hér að ofan.