Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eiga í erfiðleikum með að finna greiða leið heim

25.03.2020 - 06:53
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Um 4.500 Íslendingar eru enn skráðir erlendis, samkvæmt gagnagrunni borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Um 1.000 eru með áætlaða heimför fyrir mánaðamót og nærri 1.000 næstu tvo mánuði. Töluvert hefur borið á því að Íslendingar eigi í erfiðleikum með að finna greiða leið heim vegna landamæralokana og hertra skilyrða fyrir millilendingum.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem birtist í gær vegna kórónuveiru-faraldursins. 2.500 Íslendingar eru skráðir með óvissan heimferðardag og segir í stöðuskýrslunni að það bendi til þess að sá hópur dvelji langdvölum erlendis.

Langstærsti hópurinn í gagnagrunninum eru Íslendingar á Spáni. Af þeim rúmlega 3.000 sem voru skráðir hjá borgaraþjónustunni þar í landi hefur helmingurinn snúið heim.   Á það er bent í stöðuskýrslunni að einhverjir gætu hafa flýtt komu sinni til landsins án þess að tilkynna um það og að Íslendingar á Spáni virðist margir ætla að vera þar áfram. Um 1.500 Íslendingar eru skráðir þar núna.

Um 600 Íslendingar eru skráðir í Bandaríkjunum, 460 manns á Norðurlöndunum og 260 á Bretlandi. Nokkur fjöldi er síðan skráður í Slóvakíu og Ungverjalandi þar sem Íslendingar eru gjarnan í læknanámi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fékk 40 manna hópur læknanema leyfi til að fara yfir ungversku landamærin í gær og er á leiðinni heim. 

Í stöðuskýrslunni kemur jafnframt fram að fyrirspurnum til borgaraþjónustunnar hafi fækkað nokkuð á síðustu dögum en þær séu að sama skapi að verða flóknari viðureignar. Töluvert hafi borið á því að Íslendingar hafi átt í erfiðleikum með að finna greiða leið heim vegna landamæralokana og hertra skilyrða fyrir millilendingum. 

Allir Íslendingar sem koma til landsins þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV