
Eiga hvorki að sjá né heyra í veiðunum
Skipstjóri á selaskoðunarbátnum Brimli frá Hvammstanga gagnrýndi hrefnuveiðimenn í fréttum RÚV í gær fyrir það hve nálægt landi þeir færu við hrefnuveiðar á Húnaflóa. Þannig hafi skipverjar á hrefnubátnum Hrafnreyði skotið hrefnu um þrjá til fjóra kílómetra frá selalátrum á Heggstaðanesi og nú væri selurinn svo styggur að engin leið væri að sýna hann ferðamönnum.
Gunnar Bergmann Jónsson, talsmaður hrefnuveiðimanna, vísaði þessu á bug í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Fyrir það fyrsta þá vorum við ekki þrjá til fjóra kílómetra frá þessum skoðunarsvæðum þeirra heldur vorum við 10 kílómetra frá. Það er í rauninni ekki mögulegt fyrir þá að heyra, hvorki selina né menn í landi, þegar við erum að skjóta hrefnu á Húnaflóa.“
Ástæða þess að hrefnuveiðimenn leita nú norður fyrir land og inn á Húnaflóa, segir Gunnar að sé fyrst og fremst sú ákvörðun stjórnvalda að stækka griðasvæði hrefnu á Faxaflóa. „Við auðvitað verðum að leita annað þegar búið er að loka þessum svæðum. Við viljum að sjálfsögðu líka bera virðingu fyrir þessari starfsemi og viljum ekki vera ofan í þessum svæðum. En það þarf ekki að vera að loka svæðum fyrir okkur enn frekar, til þess að skemma hrefnuveiðarnar alveg.“