Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eiga erfitt með að greina í sundur andlit

18.04.2018 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Möguleiki er á að sjónkerfi lesblindra mótist ekki af reynslu eins og hjá öðrum. Lesblindir eiga erfitt með að greina í sundur hluti sem við þekkjum vel eins og andlit og orð en jafn auðvelt og hver annar með að greina hluti sem enginn þekkir eða hefur reynslu af, eins og geimverur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem hópur vísindamanna og nemenda við sálfræðideild Háskóla Íslands gerði. Grein um rannsóknina birtist nýlega í vísindatímaritinu Cognition. 

Í rannsókninni sem íslenski hópurinn gerði var frammistaða lesblindra borin saman við frammistöðu þeirra sem ekki eru lesblindir. Niðurstöðurnar sýndu að lesblindir áttu í meiri vandræðum en aðrir með að greina í sundur andlit. Hins vegar áttu þeir ekki í vandræðum með að greina í sundur mynstur eða geimverur. 

Þetta getur bent til þess að lesblindir sjái alveg jafn vel og aðrir en að reynslan hjálpi hins vegar þeim sem ekki eru lesblindir að skilja það sem þeir horfa á og muna eftir því seinna meir. Sjónkerfi lesblindra er því mögulega ekki jafn næmt á þá hluti sem skipta máli til þess að þekkja í sundur til dæmis andlit og orð. 

Munu gera frekari rannsóknir

Heiða María Sigurðardóttir, lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, leiðir rannsóknina. Hún segir að fáar rannsóknir hafi verið gerðar í heiminum sem skoði sjónkerfið á þennan hátt í tengslum við lesblindu.

Rannsóknarhópurinn hefur að undanförnu rannsakað sjónskynjun í Rannsóknarmiðstöð um sjónskynjun (Icelandic Vision Lab) og mun gera frekari rannsóknir, meðal annars á því hvaða hlutverk sjónskynjun spilar í lestri og lestrarörðugleikum.