„Ég vissi ekki að þetta væri misnotkun“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég vissi ekki að þetta væri misnotkun“

30.03.2017 - 14:10

Höfundar

Söngkonan Sara Pétursdóttir, betur þekkt sem Glowie, varð fyrir kynferðislegri misnotkun tvisvar sinnum á upphafsári sínu í framhaldsskóla. Þetta upplýsir hún í Ísþjóðinni með Ragnhildi Steinunni en þátturinn verður sýndur á sunnudagskvöldið á RÚV.

Glowie er á persónulegum nótum í þættinum og segir meðal annars frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir snemma á árinu 2014. Hún minnir á að kynferðisleg misnotkun sé aldrei fórnarlambinu að kenna. Hún segir því hafi fylgt ógeðstilfinning þegar hún áttaði sig á því hvað hafði gerst. Í fyrstu þagði hún yfir ofbeldinu en eftir að hún eignaðist kærasta sem hún gat treyst sagði hún honum frá og svo foreldrum sínum.

Glowie segir að tíðindin hafi verið mikið áfall fyrir foreldra hennar. „Það er ekkert auðvelt að heyra allt í einu; barnið þitt varð fyrir svona ógeði þegar þú gast ekki gert neitt – því þetta gerðist allt þegar mamma og pabbi voru ekki heima. Þetta var bara rosa erfitt“, segir Glowie.

Það hafi verið sérstaklega erfitt að viðurkenna að þetta hafi ekki verið henni að kenna. „Aðstæðurnar voru þannig að hinn aðilinn náði að stjórna mér einhvern veginn, og ég þorði ekki að gera neitt,“ segir Glowie sem leið mjög illa eftir á. „Svo gerðist þetta aftur og ég sagði engum frá. Því þá vissi ég ekki að þetta væri það sem það er. Ég vissi ekki að þetta væri misnotkun.“ 

Glowie segir að hún hafi lengi verið mjög saklaus og hafi í rauninni ekki áttað sig á því hvernig heimurinn væri og allt það illa sem í honum býr. Með boðskap sínum til ungs fólks vill hún reyna að gera heiminn betri og hún vill nota tónlistina til að hafa áhrif.

Eins og kom fram í síðustu viku hefur Glowie skrifað undir samning við útgáfurisann Columbia í London en fjölmörg plötufyrirtæki sýndu henni áhuga. Hún segist vera að byggja upp fjallið sem hún ætlar að standa á til að koma boðskap sínum á framfæri við sem flesta. Hún vill meðal annars koma þeim skilaboðum til fólks að það eigi að bera virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum.

Ísþjóðin er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldið kl. 20:20 en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.

Tengdar fréttir

Innlent

„Þetta er upphafið á stóru ævintýri“

Popptónlist

Glowie með útgáfusamning við Columbia