Ég verð að gera betur en síðast

Mynd: RÚV / RÚV

Ég verð að gera betur en síðast

03.11.2017 - 11:55

Höfundar

Jón Kalman Stefánsson rithöfundur segir skáldskapinn líkastan hljómkviðu, þegar vel tekst til. „Það eru svo miklir möguleikar í skáldsögunni, ef maður tekur allt með – ljóðið og músíkina og hávaðann.“

Út er komin ný skáldsaga eftir Jón Kalman Stefánsson. Saga Ástu heitir hún og þar er sögð saga konu frá getnaði fram til dagsins í dag, þegar hún er á sjötugsaldri. Inn í þá sögu fléttast líf þeirra sem hún kemst í snertingu við, segir Jón í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni.

Saga Ástu er skáldsaga um konu sem lífið hefur ekki leikið við, segir Jón. „Það er harmur sem hún þarf að glíma við, og eftirsjá. Mig grunar að einn af þráðum bókarinnar mundi kallast eftirsjá. Að hafa ekki gert það sem maður vildi eða hefði átt að gera.“

Nútíminn ratar seint til Íslands

Sagan gerist að mestu í Reykjavík en einnig vestur á fjörðum, í Noregi og Vín. Því er lýst hvernig söguhetjan kemur inn í einangrað sveitasamfélag og kynnist skrýtnu fólki.

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt

„Það er ákveðinn fjörður sem ég hef í huga fyrir vestan,“ segir Jón. „Ég kynntist þannig afkimum sjálfur sem blaðamaður, sem nútíminn var mjög lengi að rata til. Reyndar hefur nútíminn verið mjög lengi að rata hingað til Íslands finnst manni að sumu leyti. Við erum enn þá á nýlendutímum þrátt fyrir alla okkar tækni.“

Saga Ástu er að einhverju leyti byggð á fjölskyldu Jóns. „Hulda Markan, amma mín, gekk út frá börnum sínum og ákveðnir þættir í lífi Ástu ríma við líf móðursystur minnar, Jóhönnu Þráinsdóttur þýðanda. En þetta eru ekki þau,“ undirstrikar hann, „þetta eru ákveðnir þættir og síðan bý ég til skáldskap og færi til í tíma. Ég held að ef ég ætlaði að apa eftir veruleikanum þá yrði það algjörlega mislukkað. Það fer ekkert að ganga hjá mér fyrr en að skáldskapurinn tekur völdin og býr til nýjan heim.“

Skáldsagan er eins og hljómkviða

Jón Kalman segir að þegar rætt er um skáldsögur sé yfirleitt dvalið við umfjöllunarefni og persónur, eins og eðlilegt er. Skáldsagan er samt miklu meira en það. „Skáldsagan er eins og músík, hún er eins og hljómkviða. Uppbyggingin skiptir ekki svo litlu máli – og stundum miklu máli. Þetta er kannski eitt af helstu þemunum hjá mér. Það er að segja uppbygging verksins. Þetta er ekki stærðfræðilega úthugsað hjá mér. Ég sit ekki heima og velti því fyrir mér hvernig ég á að byggja þetta upp, heldur verður þetta til smám saman, þetta er einhver tilfinning, þetta er einhver músík sem ég heyri.“

„Maður er alltaf að leitast við að gera betur, helst betur en er mögulega hægt. Eins og Faulkner sagði: alltaf reyna hið ómögulega.“

Jón segist vera kappsamur maður, alltaf í keppni við sjálfan sig. „Ég verð að gera betur en ég gerði síðast. Það er einhver drifkraftur í mér sem er þess valdandi að mér líður illa ef ég er ekki að vinna.“

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Jón Kalman og Sjón orðaðir við Nóbelsverðlaun

Bókmenntir

Jón Kalman tilnefndur til Man Booker

Bókmenntir

Jón Kalman með bestu skáldsöguna í Frakklandi