Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég varð vitni að brútal nauðgun“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég varð vitni að brútal nauðgun“

03.09.2017 - 18:35

Höfundar

„Í rauninni er þetta bók um Ásbjörn sem varð að Bubba Morthens,“ segir Bubbi um nýútkomna ljóðabók sína þar sem hann rifjar upp sársaukafullar –en stundum fallegar– minningar úr verbúðalífinu. Í eitt skipti varð hann vitni að hrottalegri nauðgun sem hann yrkir um í bókinni.

Hreistur eftir Bubba Morthens er áhrifamikill ljóðabálkur um það umhverfi sem mótaði listamanninn Bubba; sjávarþorpin, verbúðirnar, fiskinn, kuldann og hörkuna. „Bókin er byggð á þeim tíma sem ég fer barnungur út á land og þvælist þorp úr þorpi. Þetta er minning um horfinn heim, heim hirðingjanna og verbúðanna, þess tíma þegar enn var róið til fiskjar án þess að það væri kvóti,“ segir Bubbi í viðtali við Mannlega þáttinn. En hann er einnig á pólitískum slóðum í bókinni, þó ekki hefðbundnum slíkum. „Það er til alls konar pólitík. Ofbeldispólitík eins og við þekkjum hana hjá þingmönnum og flokkum. Svo er pólitík þar fyrir utan sem þarf ekki að vera neikvæð.“

Ljóð númer 25 úr Hreistur

verbúðin var deyjandi heimur
kvótinn lá fyrir utan í dýpinu
kafbátur með útvalda innanborðs
sem brátt myndu stíga á land og eigna sér það

svartar voru gerðir þeirra
sem gáfu fimmhöfða þursinum líf
og báru kvótann í hrognapokum sálar sinnar

vorum hverfandi hópur karla og kvenna
sem kynslóð eftir kynslóð
höfðum troðið heiðar landsins og fjallvegi
verbúð úr verbúð
og sáð í akur óvinarins

„Það er eitthvað sem yfirgefur mig ekki“

Bubbi segir verbúðalíf hafa varað frá 1972 til 1979 en hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann flutti fyrst út á land til að vinna í fiski. Hann segist ekki hafa átt neitt val um það. „Ég var bara vandræðaunglingur, það var ákveðið að ég færi út á land í staðinn fyrir að enda í fangelsi.“ En verbúðalífið var grimmur heimur fyrir 16 ára ungling. Þar ægði saman fólki á öllum aldri og ljótir hlutir komu fyrir fólk.

„Ég varð vitni að mjög brútal nauðgun. Og ég gerði ekkert. Dyrnar voru hálfopnar, og þegar þetta rifjaðist upp fyrir mér var ég miður mín,“ segir Bubbi. Hann segir erfitt að útskýra af hverju hann hafi ekki gert neitt, tíðarandinn var annar og ótæpileg drykkja hafi verið á honum og allri verbúðinni. „Ég man bara þegar hún rís upp til hálfs og við náum augnsambandi. Það er eitthvað sem yfirgefur mig ekki, það er bara þannig.“ Um þetta orti Bubbi tvö ljóð í bókinni, hér er hið síðara af þeim, númer 28.

skuggi sem settist á rúmgaflinn
augu hennar voru himinblá
svona blá getur aðeins einsemdin orðið

myrkrið streymdi úr munni hennar
umvafði þig fyllti lungun
tók frá þér andardráttinn

hvernig getur fegurðin geymt í sér
allan þennan sársauka
hvernig getur ung stúlka haft þennan styrk
eyru þín urðu full af þessu myrkri
uns ekkert nema hávært suð bergmálaði inní þér
meðan augu þín drukku í sig fegurð hennar

Vonast til að vita hver hann er áður en hann deyr

Fyrr á árinu tilkynnti Bubbi það í þættinum Eftir hádegi á Rás 2 að hann hefði verið misnotaður kynferðislega sem ungur maður. „Við sem verðum fyrir ofbeldi sem börn, þeir karlmenn verða ekki langlífir. Þeir beita aðra ofbeldi, misnota áfengi og eiturlyf, deyja úr krabbameini og skilja. Þeir verða á milli tveggja heima einhvern veginn ef þeim ber ekki gæfa til að fá hjálp og vinna úr sínum málum,“ segir Bubbi sem segist ennþá vera að vinna í sínum. „Markmiðið er að vita hver ég er áður en ég dey og ég sé fram á að geta það. Það er ekki öllum gefið, til þess þarf kjark, úthald og að láta vaða,“ 

Bubbi Morthens var föstudagsgestur í Mannlega þættinum og ræddi nýútkomna ljóðabók sína, Hreistur, auk þess að lesa upp úr henni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Þessi rödd, þessi gítar, þessi djúpa þrá

Tónlist

Bubbi leitar að andardrættinum

Mannlíf

„Allir vilja græða á jólunum“

Popptónlist

Bubbi Morthens 60 ára