Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"

03.11.2017 - 14:38

Höfundar

„Ég held að körfuboltamaðurinn Pavel hafi dáið með efnilega Pavel. Eftir að ég hætti að vera sá Pavel átti ég bara ekki meiri kraft eftir til að fylgja þessum körfuboltalífstíl. Hefði ég haldið áfram í því er ég viss um að ég væri núna grátandi á öxlinni á þér og að kenna öllum öðrum um," segir Pavel Ermolinski, kaupmaður á Bergstaðastræti og fimmfaldur Íslandsmeistari í körfubolta.

Pavel þótti á sínum tíma einn efnilegasti leikmaður í Evrópu og samdi ungur við eitt besta lið Evrópu, Unicaja Malaga. Hann hefur notið mikillar velgengi á sínum ferli. Engu að síður lítur Pavel á ferilinn sem vonbrigði, frá sjónarhóli leikmannsins sem hann var þegar hann var 18 ára. „Ég vissi hvað ég hefði getað orðið, og ég varð það ekki. Og ég varð bara að leyfa því að deyja. Og við það fæddist bara nýr Pavel."

Þegar hlutirnir ganga ekki upp

Í þriðja þætti þáttaraðarinnar Markmannshanskarnir hans Albert Camus er fjallað um það þegar hlutirnir ganga ekki upp. Þegar loforðin rætast ekki, og fyrirheitin bregðast. Í þættinum ræðir Guðmundur Björn Þorbjörnsson einnig við knattspyrnumanninn Ingólf Sigurðsson sem var á sínum tíma eitt mesta efni síðari ára á Íslandi.

Ingólfur Sigurðsson
 Mynd:
Knattækni Ingólfs er á heimsmælikvarða. Því fékk dagskrárgerðarmaður að kynnast á fögrum sumardegi að Hlíðarenda.

„Talandi um eftirsjá. Kannski vegna þess að ég stóð í dyragættinni. Eitt skref inn í íbúðina og þá hefði maður kannski fengið að upplifa stóra sviðið, bæði í Hollandi og í Danmörku," segir Ingólfur, sem lenti í erifðum veikindum og þurfti að gefa atvinnumannaferilinn upp á bátinn. 

„Ég hefði getað náð eins langt og ég vildi. Þeir hæfileikar sem komu til mín, yfirburðartækni og leikskilningur hefði getað fleygt mér í fremstu röð. Ég hefði sennilega getað spilað í Meistaradeildinni og orðið ágætis landsliðsmaður. Ég held að það liggi í augum uppi," segir Ingólfur. Ferlar þeirra Pavels og Ingólfs eru ólíkir, rétt eins og mennirnir sjálfir. Og sýn þeirra á eigin feril er sömuleiðis ólík.

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski - RÚV
Pavel ásamt Jóni Arnóri Stefánssyni, liðs- og viðskiptafélaga. Hann segist hafa þurft að drepa „gamla" Pavel til að gera pláss fyrir nýjan Pavel - mann sem skilgreinir sig ekki eingöngu út frá körfubolta.

Hverra eru vonbrigðin?

Hlutirnir ganga sjaldnast upp eins og maður ætlar þeim, og þeir fara einhvern veginn. Sannleikurinn er kannski sá að vonbrigðin eru mögulega okkar hinna, okkar sem stöndum á hliðarlínunni og vonumst eftir einhverri Öskubuskusögu, einhverju ævintýri, á meðan við hámum í okkur snakkpoka. Þessu fáum við að kynnast í þriðja þætti af Markmannshönskunum hans Albert Camus, þar skyggnst er bakvið tjöldin í miskunnarlausum heimi íþróttanna og íþróttamannsins. 

Þótt þeir Pavel og Ingólfur séu ólíkir mjög, eiga þeir það sameiginlegt að gráta ekki orðinn hlut. Þannig er frásögnin í lífinu; hlutskipti langflestra íþróttamanna er að stíga til hliðar. Til þess að einhverjir verði ofurstjörnur, þurfa 99% af okkar bestu mönnum að heltast úr lestinni. Til þess að Gylfi Sigurðsson hafi orðið bestur, þurfti Ingólfur að dragast aftur úr. Til þess að einhver Spánverji hafi komist í NBA, þurfti Pavel að víkja til hliðar.

„Ég er mjög sáttur með að hafa leyft efnilega Pavel að deyja, en á sama tíma leyft einhverjum hæfileikum að deyja. Og þeir eru að deyja hægt og rólega, en það er allt í lagi, þetta er bara lífið. Þetta gerist bara."

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum

Trúarbrögð

„Hvað ef íþróttamaður héldi að hann væri Guð?“