Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ég var nörd langt á undan ykkur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var nörd langt á undan ykkur“

19.09.2018 - 09:53

Höfundar

„Ég man þegar ég keypti myndasögur í Nexus en þorði ekki að taka þær upp fyrr en ég var kominn heim, þó mig langaði til að lesa þær í strætó, jafnvel aftast. Þá gat maður kannski laumast í Punisher-blað. Nú fer maður ekkert í felur með þetta. Núna er þetta bara eitthvað sem maður fagnar og montar sig,“ segir Hugleikur Dagsson myndasagnahöfundur. Nördamenning var í hávegum höfð á ráðstefnunni Miðgarður 2018 í Laugardalshöll um helgina.

Þetta er í fyrsta sinn sem aðdáendahátið, sem á ensku nefnist Comic Con, er haldin á Íslandi. Einn aðalgesta hátíðarinnar er var velski leikarinn Spencer Wilding, sem leikið hefur í myndunum Guardians of the Galaxy, Harry Potter seríunni, Game of Thrones og Batman en er líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Darth Vader í Star Wars Rogue one. 

„Sumir segja að Star Wars sé svolítið eins og Marmite, en ég hef aldrei hitt neinn sem líkar ekki við Stjörnustríðsmyndirnar. Og þó þau kannist ekki við Stjörnustríðin þekkja þau Svarthöfða, þann stóra svarta með þunga andardráttinn,“ segir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Spencer Wilding.

Wilding segist taka öllum hlutverkum fagnandi, af hvaða toga sem þau kunna að vera. „Ég er opinn og greiður vegur að sál og eðli persónanna. Hvort sem það snýst um að leika sjóræningja eða geimveru af annarri plánetu. Hlutverkið tekur af mér ráðin og ég verð karakterinn. Þess vegna hef ég líklega nóg að gera. Hver vill ekki leika skrímsli, varúlfinn og Frankenstein, sem er frábær?“ Wilding er tíður gestur á aðdáendaráðstefnum um allan heim og segir hópinn sem þær sækja fara sífellt stækkandi. „Það er flott að vera nörd þessa dagana og frábært að fara út íklæddur ofurhetjubúningi. Það er flott“

Heimavöllur Hugleiks

Hugleikur Dagsson tók þátt í hátíðinni og flutti þátt af hlaðvarpi sínu, Slaygðu, fyrir áhorfendahóp í Laugardalshöll. Hann stýrir Slaygðu með Söndru Barilli, og fjalla þættirnir um sjónvarpsseríuna Buffy the vampire slayer. Hann fagnar frumkvæði að aðdáendaráðstefnu hér á landi. „Ég hef alltaf verið nörd og farið á svona ráðstefnur erlendis áður og það er gleðiefni að þetta sé loksins á Íslandi. Maður var með fiðring í maganum í morgun, ég myndi alveg kalla þetta minn heimavöll.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Að hans sögn eru nördar og sérstakt áhugafólk um leiki, spil og teiknimyndasögur síst jaðarhópur. „Þetta er hópur sem stækkar og stækkar sökum þess að mjög mikið af viðfangsefnunum í nördakúltúr er orðið svo mainstream. Star Wars er komið aftur af krafti, allar ofurhetjumyndirnar eru vinsælasta fyrirbærið í dag. San Diego Comic Con hátíðin er í raun stærsti menningarviðburður á þessari plánetu, kannski stærri en HM. Þá sjálfkrafa stækkar hópurinn og fólk hikar minna við að koma út úr skápnum,“ segir hann. 

Hugleikur tekur undir þau sjónarmið að nördamenning hafi færst af jaðri nær miðju. „Það eru allir farnir að kalla sig nörda í dag, það er satt, það er ekki lengur jaðar, sem er frábært en stundum er maður með smá nörd-"rage" og hugsar: Ég var fyrstur. Ég var nörd langt á undan ykkur. En það er auðvitað vitleysa að hugsa þannig því "the more the merrier" eins og maður segir. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ekkert er manga óviðkomandi

Bókmenntir

Myndasögur og epískar fjölskyldusögur

Bókmenntir

Söfnunarárátta á háu stigi

Kvikmyndir

Afríka án nýlendustefnu fortíðarinnar