Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ég sagði „bíddu“ og „seinna“ of oft við börnin

Mynd:  / 

Ég sagði „bíddu“ og „seinna“ of oft við börnin

11.02.2019 - 15:14

Höfundar

Ágústa Margrét Arnardóttir er fimm barna móðir á Djúpavogi. Hún rak hönnunarfyrirtæki þangað til hún settist í 3. bekk með syni sínum fyrir tveimur árum. Eftir tæpa fjóra mánuði í skólanum segir hún að hugsunarháttur hennar gagnvart fjölskyldunni og uppeldi barna hennar hafi gjörbreyst. Nú undirbýr Ágústa útgáfu barna- og ungmennatímaritsins Hvað.

„Ég var farin að segja ótrúlega oft „bíddu“ og „seinna“ við börnin af því að ég þurfti að sinna fyrirtækjarekstrinum. Það er hættulegt,“ segir Ágústa Margrét þegar hún rifjar upp af hverju hún ákvað að setja hönnunarfyrirtækið sitt í pásu og einbeita sér að uppeldinu. Hún segir að reksturinn hafi tekið mikinn tíma frá fjölskyldunni og hún hafi tekið ákvörðun að setja fjölskylduna í forgang. „Ég fattaði mig á því að þetta gengur ekki alltaf allt saman.“ Síðan hefur hún varið tíma sínum að miklu leyti með börnunum og fjölskyldunni.

Fyrir tveimur árum fór fjölskyldan að leyfa fólki að fylgjast með á samfélagsmiðlum. Þau settu útivist og samveru ofar öllu, þar sem öll fjölskyldan var saman. 

Settist á skólabekk með syni sínum

Fyrir rúmum tveimur árum ákvað Ágústa að fara með syni sínum í skólann og vera með honum allan skóladaginn, þar sem honum leið ekki vel. „Ég áttaði mig á því að hann var í kolröngum farvegi. Honum leið ekki vel í eigin skinni.“ Hún ýtti öllu öðru til hliðar til þess að geta verið með honum í skólanum, sem hún segir að hafi alveg verið erfitt, til dæmis hafi alfarið komið í hlut mannsins hennar að vinna fyrir fjölskyldunni. „Það er auðvitað ekki sjálfgefið, en það var sko þess virði.“ Ágústa segir að þetta hafi breytt hennar sýn á lífið: „Þetta kenndi mér á hann, á mig og bara allt lífið. Þetta kenndi mér hvað hver einasta stund er mikilvæg með börnunum, af því að tíminn líður svo hratt.“

Í framhaldi af þessu breyttu þau um stefnu og reyndu að nýta allan þann tíma sem gafst fyrir samverustundir með börnunum. Þau voru í níu vikur í útlöndum í fyrra, öll saman. „Við gerðum það til að kynnast enn betur, til að vinna betur saman sem hópur og sjá hvar þeirra áhugasvið liggur án þess að truflast af samfélagslega ákveðnum farvegi.“ Hún segir að þau hafi áttað sig betur á því hvað skiptir mestu máli, það séu litlu hlutirnir. 

Upplifun í staðinn fyrir eignir. Samvera og gæðastundir ofar öllu.

Tímaritið Hvað

Ágústa vinnur nú að útgáfu tímarits fyrir börn á aldrinum 8-18 ára, sem kallast Hvað. Hana langar að gefa börnum rödd, með því að birta innsent efni eftir börn. Það verður umfjöllun um útivist, náttúruna, samveru og jákvæð samskipti á hvetjandi hátt. Ágústa er að safna fyrir útgáfunni á Karolina Fund.

Viðtalið við Ágústu, sem var í Mannlega þættinum í dag, er í spilaranum hér fyrir ofan.