Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ég mun vilja halda áfram í mínu ráðuneyti“

28.04.2019 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Silfrið - RÚV
„Staða mín í dómsmálaráðuneytinu er tímabundin og ég mun vilja halda áfram í mínu ráðuneyti,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og starfandi dómsmálaráðherra. Rætt var við hana í Silfrinu í hádeginu.

Þórdís segir að það að hún þekkti vel til í dómsmálaráðuneytinu hafi verið hluti af þeirri ákvörðun að taka að sér stöðu dómsmálaráðherra tímabundið. „En það er þannig að ég sagði strax í upphafi að þetta yrði tímabundið og ég hef verið í ráðuneyti ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar núna í tvö ár. Ég er þar með mjög stór verkefni á borðinu og vil koma ákveðnum hlutum til framkvæmda og koma stórum málum í höfn. Þar af leiðandi stend ég við það að staða mín í dómsmálaráðuneytinu er tímabundin og ég mun vilja halda áfram í mínu ráðuneyti.“

Þórdís tók tímabundið við embætti dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins. Hver er staðan í ráðuneytinu eftir allar þessar sviptingar? „Þetta er þungt ráðuneyti. Það er pólitískt erfitt og viðkvæmt að taka það að sér að leiða það. Varðandi starfsfólkið og starfsandann þá er margt fólk þarna sem hefur verið þarna allan þennan tíma og stendur sig ávallt með prýði. En auðvitað hefur svona áhrif á alls konar atriði innan ráðuneytis. Ég tók að mér þetta verkefni til þess að leiða ákveðin mál í farveg. Við höfum nú tekið stórar ákvarðanir í því eins og að óska eftir endurskoðun yfirdeildar á þessum dómi Mannréttindadómstólsins. Það er eitt og vonandi fáum við svar um það sem fyrst, hvort það verður tekið fyrir eða ekki. Heilt yfir eru litlar líkur á því miðað við fjöldan en eðli þessa máls er með þeim hætti að ég held að það verði tekið fyrir. Fordæmisgildi þessa dóms ekki bara á Íslandi heldur í öðrum löndum líka.“

Þórdís segir að enginn tímarammi sé á því hvenær ákvörðun getur legið fyrir. Það gætu verið einhverjar vikur þar til það skýrist. „Ég sagði þá að á meðan við bíðum eftir því þá verði ekki frekari ákvarðanir teknar. Dómarar sjálfir meta sitt hæfi og þessir fjórir dómarar sögðu að þeir ætluðu ekki að dæma að svo stöddu og það er þá bara þeirra að taka einhverjar aðrar ákvarðanir eftir því hvernig mál þróast eða annað. Það þarf að hafa í huga að Hæstiréttur er búinn að segja að þeir eru lögmætt skipaðir og þangað til þeir segja annað þá eru þessir dómarar lögmætt skipaðir. Þessi dómur hefur ekki bein réttaráhrif á Íslandi en hefur gildi að þjóðarrétti sem þarf að taka til einhverrar skoðunar. Nú er bara að bíða og sjá hvort að málið er tekið fyrir sem mér finnst algjört grundvallaratriði að hafa gert og fá þá skýra afstöðu dómsins til málsins.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV