Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég mun klárlega aldrei sætta mig við þetta“

12.04.2019 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Landeigandi við Finnafjörð segist aldrei munu sætta sig við stórskipahöfn í firðinum. Sveitarstjóri Langanesbyggar vonast þó eftir sátt við landeigendur. Í kjölfar undirritunar samninga um verkefnið verði öll samskipti við þá mun markvissari.

Á meðan margir fagna Finnafjarðarverkefninu hafa frá upphafi komið fram gagnrýnisraddir þar sem alþjóðleg stórskipahöfn á þessum stað er talin óásættanlegt inngrip í náttúruna.

Stórskipahöfn og búseta í firðinum passi ekki saman

Þannig hafa landeigendur við Finnafjörð gagnrýnt þetta verkefni frá upphafi. Þeir telja að sú mikla starfsemi og gríðarlega uppbygging sem fylgi stórskipahöfn, passi engan veginn við búsetuna hér á þessu svæði. „Ég mun klárlega aldrei sætta mig við þetta, ég er allt of mikill náttúrverndarsinni til þess. Bæði út af landinu og fiskimiðunum og dýralífinu bara í heild sinni, segir Reimar Sigurjónsson, bóndi á Felli.

Telur verkefnið hafa verið illa kynnt     

Og hann kvartar yfir því hve illa verkefnið hafi verið kynnt landeigendum við Finnafjörð. Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segist skilja þá gagnrýni. „Síðan ég kom að þessu þá hefur verið töluvert samtal við landeigendur, en það hefur alltaf verið þeim annmörkum háð að við höfum kannski ekki haft neitt um að semja. Þannig að við höfum svolítið verið í þessi stöðu að uppfræða fólk eftir því sem hlutir hafa gerst.“ 

Vonar að það náist sátt við landeigendur

En í kjölfar stofnunar tveggja félaga um þróun og rekstur hafnarinnar muni þetta breytast. Samskiptin verði nú markvissari. Reimar telur það jákvætt þótt hann efist reyndar um árangurinn. „Jú menn hljóta að hlusta á hvað menn hafa að segja. Það er nú alveg lágmark að hlusta á það. Þó maður sé nú ekkert endilega með þessu,“ segir hann. „Ég vona innilega að við getum gert landeigendur sátta og ég vona innilega að við náum að búa þannig um hnúta að þeir fari frá borðinu ánægðir,“ segir Elías.