Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ég lifi í tíu vikna köflum“

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson

„Ég lifi í tíu vikna köflum“

29.09.2017 - 16:33

Höfundar

Á sunnudaginn er síðasta sýningin á Með fulla vasa af grjóti en hún verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Í verkinu eru einungis tveir leikarar, Stefán Karl og Hilmir Snær, sem leika samtals 15 hlutverk af karl- og kvenkyni. „Það er mun auðveldara að skipta um kyn heldur en búning á sviði,“ segir Stefán Karl sem var föstudagsgestur í Mannlega þættinum.

Leikritið var fyrst sett upp á Íslandi árið 2000 og þá voru um 160 sýningar. Það fór svo aftur á fjalirnar 2012 en þá fóru Stefán Karl og Hilmir Snær hringinn í kringum landið með sýninguna sem þeir hafa nú sett upp oftar en 200 sinnum. Leikritið gerist á Írlandi þar sem stór Hollywood kvikmynd er tekin upp í litlu írsku þorpi með öllu því raski sem fylgir, hvernig samfélagið nánast fer á hliðina þegar heimamenn og kvikmyndastjörnur fara að vinna saman. „Bara dálítið eins og þegar Game of Thrones gengið kemur til Íslands í tökur,“ segir Stefán Karl.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá fyrstu uppsetningu verksins árið 2000.

Samþykkti sýninguna í morfínvímu

Að sögn Stefáns er verkið stútfullt af drama og gríni. „Þetta er svona tragíkómík. Undirtónninn er alvarlegur og við leikum þetta þannig, þetta er alvöru fólk með tilfinningar og fortíð.“ Eins og alþjóð veit hefur Stefán Karl glímt við erfið veikindi, var hann ekkert hræddur við álagið sem fylgir sýningunni? „Ég var náttúrulega beðinn um þetta þegar ég var í blússandi morfínvímu,“ hlær Stefán við. „En neinei þetta hefur gengið ótrúlega vel, ef eitthvað er hefur þetta hjálpað mér.“

Mynd: RÚV / RÚV
Menningin fjallaði um sýninguna fyrr í vetur.

Stefán segist lifa lífinu í 10 vikna köflum, en þá fer hann í skanna og prófanir til að athuga hvort krabbameinið er komið upp aftur, sem fullvíst er talið að gerist á endanum. „Hverjar tíu vikur sem ég fæ aukalega er bara frábært og ég reyni að nýta þær eins og ég get. Það versta sem maður gerir þegar maður er alvarlega veikur er að leggjast út af,“ segir Stefán og bætir við að besta lækningin sé að standa á fætur og ganga á stað út í lífið. „Ég eyddi síðustu tíu vikum í þetta og sé ekki eftir þeim. Þær hafa gefið mér aukinn kraft.“ Ekki síst hafi samstarfið við Hilmi Snæ verið happadrjúgt. „Það er náttúrulega frábært að leika með mann eins og Hilmi, hann er ofboðslega gefandi manneskja og listamaður. Það gaf mér rosalega mikið að koma aftur að þessum hlutverkum með honum.“

Gerir tilraunir á áhorfendum

Á döfinni hjá Stefáni Karli er uppstand sem hann vinnur að um þessar mundir og stefnir á frumsýningu öðru hvorum megin við áramót. „Það er eitt af því sem ég hef alltaf verið hræddur við, fara einn upp á svið og segja brandara sem Stefán Karl, ekki einhver karakter.“ Á næstunni heldur hann svokallaðar tilraunasýningar þar sem hann prófar efni á áhorfendum áður en verkið verður eiginlega frumsýnt. „Þetta er svona dálítið eins og þegar það er verið að prófa ný krabbameinslyf. Áhorfendur eru tilraunadýr og ég er vísindamaðurinn sem sting og sprauta fólk með gríni.“

Stefán Karl var föstudagsgestur í Mannlega þættinum í dag en Með fulla vasa af grjóti verður sýnt í beinni útsendingu á sunnudag klukkan 19:45.

Tengdar fréttir

Leiklist

Stefán Karl fékk tré frá Þjóðleikhúsinu

Leiklist

„Stefán Karl, er þér alvara?“

Innlent

„Lífið er núna“

Mannlíf

Stefán Karl búinn með krabbameinsmeðferðirnar