Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

17.12.2017 - 15:34

Höfundar

Kristín Eiríksdóttir var nýverið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína aðra skáldsögu, Elín, ýmislegt. Í bókinni segir af tveimur konum á ólíkum aldri sem tengjast á óvæntan hátt.

„Sú yngri 19 ára og séní. Hefur skrifað leikrit sem þykir ofsalega gott og er hálfgerð stjarna,“ segir Kristín í samtali við Kiljuna og neitar því ekki að nokkur líkindi séu með henni sjálfri. Hin konan hefur lengi starfað sem leikmyndahönnuður og/eða leikgervahönnuður, eða „propsari“, fyrir kvikmyndir og leiksvið. „Hún er mjög flott og fær í því sem hún gerir en hún lærði myndlist,“ segir Kristín. 

Aðferð við að tortíma efni

Titill bókarinnar er áletrun á kassa sem söguhetjan finnur í geymslu sem hún vissi ekki að væri til og upp úr kassanum kemur lítill glerhestur. „Hann vekur upp í aðalpersónunni svo mikinn viðbjóð að hún getur ekki tortímt honum,“ segir Kristín. Hún fær ekki af sér að henda honum í sjóinn því hún er hrædd við að sjórinn breytist í hestinn, vill ekki sturta honum í klósettið af ótta við að hann festist í lögnunum og alls ekki setja hann í endurvinnsluna því þá gæti hann verið í hverju sem er. „En það kemur fram í bókinni hvernig henni tekst að tortíma hestinum. Það er aðferð við að tortíma efni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Bókin gerist í Reykjavík fyrir utan það vann Kristín meðvitað með það að notast nánast ekkert við staðarheiti – þrátt fyrir að hún geti sjálf staðsett allar senurnar. „Ég pæli mikið í þessu, hvar maður vill að fólk sé.“ Atburðarás bókarinnar er óvænt og gagnrýnendur Kiljunnar töluðu um að Kristín „fokkaði í“ lesendum. Hún gengst við því en segist ekki hafa verið búin að ákveða plottið áður en hún byrjaði að skrifa. „Ég plotta ekki sögur, veit ekkert hvert þær fara þegar ég byrja. Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk,“ segir Kristín og bætir við atburðarásin sé eins og dulvituð. „Ég veit ekkert í rauninni af hverju þessar persónur koma fram. Það er eina leiðin fyrir mig að skrifa, annars missi ég bara áhugann á bókinni ef ég veit hvað gerist,“ segir Kristín að lokum. 

Egill Helgason ræddi við Kristínu Eiríksdóttur í Kiljunni. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Flétta, áferð og þræðir í allar áttir