„Sú yngri 19 ára og séní. Hefur skrifað leikrit sem þykir ofsalega gott og er hálfgerð stjarna,“ segir Kristín í samtali við Kiljuna og neitar því ekki að nokkur líkindi séu með henni sjálfri. Hin konan hefur lengi starfað sem leikmyndahönnuður og/eða leikgervahönnuður, eða „propsari“, fyrir kvikmyndir og leiksvið. „Hún er mjög flott og fær í því sem hún gerir en hún lærði myndlist,“ segir Kristín.
Aðferð við að tortíma efni
Titill bókarinnar er áletrun á kassa sem söguhetjan finnur í geymslu sem hún vissi ekki að væri til og upp úr kassanum kemur lítill glerhestur. „Hann vekur upp í aðalpersónunni svo mikinn viðbjóð að hún getur ekki tortímt honum,“ segir Kristín. Hún fær ekki af sér að henda honum í sjóinn því hún er hrædd við að sjórinn breytist í hestinn, vill ekki sturta honum í klósettið af ótta við að hann festist í lögnunum og alls ekki setja hann í endurvinnsluna því þá gæti hann verið í hverju sem er. „En það kemur fram í bókinni hvernig henni tekst að tortíma hestinum. Það er aðferð við að tortíma efni.“