Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ég held að gullárin séu að baki á Íslandi“

01.02.2019 - 19:28
Mynd:  / 
Fækkun ferðamanna getur haft áhrif á þjóðarbúið. Þetta segir fjármálaráðherra. Hann segist þó ekki hafa áhyggjur af stöðu ferðaþjónustunnar. Hollendingur sem selur ferðir til Íslands merkir samdrátt í sölu í fyrsta sinn í mörg ár, og segir að gullár íslenskrar ferðaþjónustu séu að baki. Bandaríkjamaður sem einnig selur ferðir til Íslands segir hins vegar að aukning sé í sölu hjá sér.

Farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll fækkar um tæplega 9% í ár, samkvæmt farþegaspá Isavia sem var kynnt í vikunni. Mestu munar um fækkun skiptifarþega, sem fara aldrei út úr flugstöðinni, en samkvæmt spánni fækkar þeim sem fara inn og út úr landinu aðeins um 2%.

„Ég hef ekki áhyggjur af því í sjálfu sér að við vöxum ekki á sama hraða og við höfum gert undanfarin ár,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. „Það má segja að það sé stórkostlegur árangur hjá okkur að hafa náð að taka á móti þessum fjölda ferðamanna og þessum mikla vexti. Og þótt það dragi eitthvað úr fjölguninni megum við ekki halda að það séu slæmir tímar framundan.“

Nú er þetta okkar stærsti iðnaður, gæti fækkun haft áhrif á þjóðarbúið?

„Já vissulega. En þá er á það að líta að  þessi nýja, stóra grein er til viðbótar við þær stoðir sem við höfum byggt á til þessa. Þannig að við erum miklu sterkara hagkerfi,“ segir Bjarni. „Sveiflur í þessari grein munu hafa áhrif en við megum ekki gleyma því að við erum komin á allt annan og betri stað í efnahagslegu tilliti með greininni.“

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að spá Isavia hafi komið sér nokkuð á óvart. „Ég gerði ráð fyrir heldur meiri fækkun ferðamanna til landsins þannig að ég fagna því ef þeirra spá gengur eftir.“

Þannig að þetta yrði ekki mjög slæmt högg fyrir greinina ef þetta gengur eftir?

„Nei það held ég ekki.“

Of dýrt

Icelandair Mid-Atlantic ferðakaupstefnan hófst í Laugardalshöll í dag. Hana sækja 700 þátttakendur frá 21 landi, bæði seljendur og kaupendur ferðaþjónustu. Michael Marzano, forstjóri FM Tours, sem hefur selt ferðir frá Bandaríkjunum í 30 ár segir að spá Isavia um fækkun ferðamanna komi á óvart.

„Við sjáum hana ekki. Reyndar fara viðskiptin vaxandi og þá einkum með skemmri viðdvöl sem Icelandair býður upp á.“

Hvernig eru söluhorfur fyrir árið 2019?

„Við væntum fjögurra prósenta aukningar.“

Hinum megin Atlantsála hafa menn aðra sögu að segja. Fred T. Falkena, framkvæmdastjóri BBI Travel í Hollandi, merkir nokkurn samdrátt.

„Í fyrra var aukningin í fyrsta skipti minni en við höfum vanist. Á hverju ári að undanförnu hefur vöxturinn verið um 25-30 prósent. Í fyrra dró úr honum og fjöldinn var sá sami og árið á undan. Ég reikna með að ástæðan sé verðlagið á Íslandi, að það sé að verða of hátt á gistirými, mat og drykk. Það er mjög dýrt miðað við aðra áfangastaði og fólk ákveður því að fara annað.“

Falkena segir að um það bil fimm prósenta samdráttur hafi orðið í sölu ferða til Íslands frá því í fyrra.

„Ég held að gullárin séu að baki á Íslandi,“ segir Falkena.