Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Ég er grínista-flóttamaður“

Mynd: EPA / EPA

„Ég er grínista-flóttamaður“

06.11.2017 - 08:00

Höfundar

Kathy Griffin, uppistandari til þriggja áratuga, leikkona, Emmy verðlaunahafi og stjarna í Bandaríkjunum kemur til Íslands í lok mánaðarins og verður með uppistand í Hörpu. Sjálf kallar hún sig „grín-flóttamann“ eftir að hún komst í ónáð hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Grín-túr Kathy ber heitið Laugh your Head off, byrjaði nýlega í Ástralíu og hefur þegar fengið frábæra dóma gagnrýnenda. „Þið getið búist við að sjá eitthvað sem þið getið ekki séð hjá öðrum grínista. Ég er grín-flóttamaður frá Bandaríkjunum þessa stundina. Ég hef áhugaverðar sögur af hinum óvart-kjörna-forseta. Hann hefði auðvitað aldrei átt að ná kjöri, því hann svindlaði með hjálp Rússa,“ útskýrir Kathy.

Trump og Griffin takast á

Það liggur fyrir að hún er ekki í náðinni hjá Trump og stuðningsmönnum hans eftir að hún birti mynd af sér með afskorið höfuð Trump fyrr á árinu (það var reyndar hrekkjavökugríma) og blóð út um allt, í gríni. Í kjölfarið hefur hún sætt rannsókn FBI og fékk um tíma ekki að fljúga frá Bandaríkjunum. „Núna erum við með þennan fávita í forsetaskrifstofunni og ég tók mynd, sem er kannski ósmekkleg, en ekki ólögleg. Við erum enn með það sem er kallað mál- og tjáningarfrelsi. En hann kaus að nota vald sitt sem forseti og höndla þetta mál svona.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Myndin umrædda þar sem Griffin heldur á grímu í líki Trump.

Persónulegar sögur rata í uppistand

Kathy segist vera mikill sögumaður þegar hún kemst á svið og gerir grín að alls kyns aðstæðum í lífi sínu, fjölskyldu, drykkfelldri móður sem er afar hátt skrifuð hjá aðdáendum hennar og nágrönnum, en Kathy býr í næsta húsi við Kim Kardashian og Kanye West. „Ég hef það mikinn metnað fyrir starfi mínu sem grínisti að ég flutti í hús við hliðina á þeim til þess að geta sagt ykkur, áhorfendum, hvernig það er að fara í heimsókn til þeirra eða fá þau yfir til mín.“

Kathy Griffin var í einkaviðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Allar upplýsingar um uppistand hennar síðar í mánuðinum í Hörpu.