„Ég er ekki í þessu til að vera í öðru sæti“

Mynd:  / 

„Ég er ekki í þessu til að vera í öðru sæti“

29.12.2018 - 21:35
Sara Björk Gunnarsdóttir var í kvöld valin Íþróttamaður ársins 2018. Hún er sjöunda konan til að vinna verðlaunin. Sara á gott ár að baki en hún segir það hafa átt sér bæði hápunkta og lágpunkta.

„Árið sjálft hefur verið svona upp og niður. Með landsliðinu þá var það kannski aðeins meira niður. En við vorum mjög nálægt því að komast á HM í fyrsta skipti sem var náttúrulega draumur okkar allra en því miður ekki í þetta skipti.“ sagði Sara Björk um landsliðið en í haust missti liðið af sæti á HM í Frakklandi næsta sumar.

Þá er Sara Björk jákvæð fyrir framhaldinu með landsliðinu undir nýjum þjálfara, Jóni Þór Haukssyni.

„Það er bara spennandi. Nýr þjálfari og nýtt upphaf hjá okkur stelpunum og það er bara næsta mót, við ætlum okkur að fara á næsta stórmót,“

Gengið var frábært hjá félagsliði Söru Bjarkar, Wolfsburg í Þýskalandi. Liðið vann bæði deild og bikar heimafyrir auk þess að komast í úrslitleik Meistaradeildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir Lyon.

„Við náttúrulega tókum titilinn og bikartitilinn og komumst í úrslitaleik í Meistaradeildinni. Auðvitað hefur maður gaman af þessu, maður er fyrst og fremst í þessu til að hafa gaman og síðan vill maður vinna þessa stóru titla.“

Sara Björk var spurð um markmiðið hjá Wolfsburg, hvort að liðið ætlaði nokkuð að vera í öðru sæti. Sara var fljót til svars.

„Nei, ég er ekki í þessu til að vera í öðru sæti,“

Viðtalið við Íþróttamann ársins 2018 má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Sara vann með 48 stigum - Hver fékk hvað?

Íþróttir

Sara Björk er íþróttamaður ársins 2018