Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ég er ekki fræðimaður, ég vinn á innsæinu

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Ég er ekki fræðimaður, ég vinn á innsæinu

19.05.2018 - 08:00

Höfundar

„Ég er ekki mikill fræðimaður, ég grúska ekki mikið í textum og greinum um feðraveldið, þetta er meira á tilfinningalegu stigi. Ég vinn þetta meira á innsæinu.“ Guðmundur Thoroddsen ræddi vinnuaðferðir í myndlistinni, bleika litinn, innsæið, fræðimennsku, karlmennsku, pulsur, prump og margt annað í Víðsjá.

Guðmundur Thoroddsen sýnir um þessar mundir í Harbinger við Freyjugötu 1 í Reykjavík. Sýningin kallast Allt í klessu og er hluti af sýningarröðinni Við endimörk alvarleikans þar sem viðfangsefnið er leikur, í víðum skilningi. Víðsjá settist niður með Guðmundi á heimili hans í Þingholtunum til að ræða verkin á sýningunni en líka margt annað. Hér fyrir ofan er hægt að hlusta á viðtalið heild sinni, en hér fyrir neðan er hægt að lesa brot úr því.

Finnst þér New York hafa mótað þig sem myndlistarmann?

„Já, en það var ekki bara skólinn, heldur líka fólkið sem var í honum, og svo það að ég fékk samning hjá galleríi. Þannig að ég fékk það besta úr báðum heimum. Ég fékk gallerí í New York en fór svo bara beint heim til að búa, sem er ódýrara og friðsælla en New York.“

„Ég tek yfirleitt þátt í einni listmessu á ári, sem hjálpar til við að selja, en það selst miklu meira af dótinu mínu úti en hér heima. Ég skil það alveg að vissu leyti, því þó mér finnist myndirnar mínar kannski fínar þá er ég ekkert viss um að ég myndi vilja hafa þær uppi á vegg hjá mér. Og þessi markaður á Íslandi snýst mikið um einstaklinga sem eru að kaupa verk til að hafa á vegg heima hjá sér, sem mér finnst mjög fínt, það er mjög heilbrigður markaður. En það hentar kannski ekki mínum verkum það vel. Þau eru ekki endilega heimilisvæn.“

Já, ég veit ekki af hverju þú segir það….

„Æ, bara þessir subbulegu kallar, mígandi og fretandi…til dæmis þeir.“

Var það í New York sem þú fórst að spá í karlmennskuna og feðraveldið og þetta sem þú ert hvað þekktastur fyrir að mála?

„Þetta kom eiginlega á síðustu árunum mínum í New York. Pabbi dó árið 2010 og þá fór maður dálítið að hugsa um sinn stað í goggunarröðinni, eða keðjunni. Hvar ég stæði þar, og feðraveldið og þetta samfélagskipulag sem við höfum búið við, bara alltaf.“

Processed with VSCO with g3 preset
 Mynd: hallaharðar

„En ég er ekki mikill fræðimaður, ég grúska ekki mikið í textum og greinum um feðraveldið, þetta er meira á tilfinningalegu stigi. Ég vinn þetta meira á innsæinu. Ég reyni að koma út mínum hugsunum og tilfinningum varðandi feðraveldið og þetta verður ekki alltaf mjög skýr afstaða. Frekar blendin, og oft bjánalegt, kannski húmorískt, því það er þannig sem ég get komið hlutunum frá mér.“

Á sýningunni í Harbinger ertu á svipuðum slóðum í málverkinu og áður, setur saman táknmyndir, en samt ertu að fjarlægjast þessar karlmennskupælingar, er það ekki?

„Jú, ég tók karlana eiginlega alveg út. Mér finnst gaman að teikna þessa karla og sjá hvað þeir gera í myndunum, en þetta var orðið dáldið formúlukennt og ég áttaði mig á því að þetta brann ekkert á mér lengur, þessar hugmyndir um karla og karlmennsku. Ég er bara að hugsa um eitthvað allt annað og léttvægara í dag.“

„Ég hef svo oft klínt einhvers konar hugmyndafræði á verkin mín eftir á, sem þýðir ekki að það sé ekki satt. En hugmyndin kemur svo oft eftir á hjá mér.“

Hvað er það við bleika litinn sem heillar?

„Þegar ég var að byrja þá fannst mér bleikur eitthvað svo ljótur, þannig að ég fór að gera tilraunir með bleikan og þá fékk ég algjört æði fyrir honum. Og eftir á var hægt að klína á hann alls konar merkingu. Hann er líkamlegur, hann er gervilegur og svo er hann mjög ráðandi í kitch-menningu, svona yfirdrifinni fegurð. Hann er bara svo marglaga. Svo fannst mér eitthvað sniðugt þegar ég var yngri að vera karlmaður að gera bleikar myndir. Það varð einhver árekstur þar.“

„En þegar ég var yngri þá hélt ég líka að maður þyrfti alltaf að hafa konsept á bak við myndlistarverkin sín, og kannski þarf maður það að vissu leyti, en hugtakið konsept er miklu teygjanlegra en ég hélt þá. Þá hélt ég að þú þyrftir hugmynd þar sem þú hefur eitthvað að segja og framkvæma hana í myndverk. En konsept getur bara verið einhvers konar tilfinning eða andrúmsloft sem þú vilt koma áleiðis. Það þarf ekki að vera meira en það.“