„Ég er bara brött fyrir þann fund“

Mynd: Hreiðar Þór Björnsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, segir að það leggist vel í sig að kynna málefnasamning stjórnarmyndunarviðræðnanna fyrir flokksráði flokksins á miðvikudag. „[Málefnasamningurinn] er algjörlega á lokametrunum. Flest mál eru leyst milli flokkanna málefnalega en hann verður ekki lagður fyrir flokksstofnanir fyrr en á miðvikudag.“ Hún býst við að forsetinn boði til fundar til að afhenda formlegt stjórnarmyndunarumboð í dag eða á morgun.

Viðræður um embætti að hefjast 

Katrín segir viðræður um skiptingu ráðuneyta rétt að hefjast. „Það mun ekki skýrast fyrr en á eftir, kannski ekki fyrr en á morgun.“ Ekki liggi heldur fyrir hver verði forseti Alþingis. 

Katrín segist ekki hafa rætt við forsetann í dag. Hún telur að forsetinn boði til fundar til að afhenda umboð til stjórnarmyndunar í dag eða á morgun. „Það mun gerast þegar við náum til botns í okkar málum. Þá mun forsetinn boða einhvern til þess að sækja umboð til stjórnarmyndunar. Ég á von á því að það verði í dag eða á morgun,“ segir Katrín. 

„Þingflokkarnir hittast í dag og ég mun greina mínum þingflokki frá stöðunni í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.“

Ræða þingstörf

Formannafundur stjórnmálaflokkanna verður í Alþingishúsinu í hádeginu. Bjarni Benediktsson, starfandi forsætisráðherra, boðar til fundarins venju samkvæmt. „Við verðum að koma okkur saman um hvenær þing á að koma saman, hvenær er líklegt að við getum rætt fjárlög, svo fremi sem ný ríkisstjórn verði mynduð á næstu dögum, þá er mikilvægt að fjárlög verði rædd og það eru þá breytingar frá fjárlagafrumvarpinu sem ekki var búið að mæla fyrir í september,“ segir Katrín. „Það verður stóra málið og síðan þarf að ræða ýmsa aðra þætti eins og nefndaskipan og fleira sem verður þá rædd á næstu dögum milli flokkanna.“

Lítill tími til stefnu

Katrín segir það liggja fyrir að það verði lítill tími sé til stefnu til að fjalla um fjárlögin. „Síðan eru önnur mál sem þarf að leggja hér fyrir þingið og ég nefni sérstakega NPA og málefni fatlaðs fólks sem var ekki lokið hér í vor, því miður. Og liggur fyrir samkomulag flokkanna sem þá voru á Alþingi að það væri mikilvægt að setja það mál í forgang. Þannig að það þarf að leggja það fyrir þingið. Ég tel þó að það væri hægt að boða til þings í næstu viku ef við náum saman um það vinnulag hér flokkarnir á Alþingi.“

„Leyfist að vera ósammála“

Katrín segist ekki kvíða því að kynna málefnasamninginn fyrir flokksstofnunum Vinstri grænna á miðvikudag, en ljóst er að skiptar skoðanir eru um stjórnarmyndunarviðræður flokksins með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. „Hann leggst bara vel í mig, enda erum við öll félagar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Okkur leyfist alveg að vera ósammála um mál. Þannig að ég er bara brött fyrir þann fund.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi